news

Vikulokabréf 7. febrúar 2020

07. 02. 2020

Kæru foreldrar.

Vikan sem var rétt að byrja er að vera búin, það má segja að tíminn æði áfram en gaman að sjá hvað dagarnir verða bjartari með hverjum degi.

Einn eftirminnilegasti viðburður vikunnar var Þorrablótið okkar sem löng hefð er fyrir. Við skemmtum okkur einstaklega vel og ánægjulegt var að sjá hvað börnin eru áhugasöm um matinn. Þau voru full tilhlökkunar að fá að smakka og sum voru greinilega að sýna hugrekki með því að smakka t.d hákarl og sviðasultu. Fyrir blótið var búið að ræða matinn og þær hefðir sem tengjast honum.

Dagur leikskólans var í gær og tókst opna húsið einstaklega vel. Mörg skemmtileg listaverk fæddust og sköpunin var allsráðandi. Ánægjulegt að sjá hvað samveran var gefandi og hversu margir höfðu tök á því að koma. Ykkur til upplýsingar þá er Dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins og er þetta í 13. skipti sem deginum er fagnað með formlegum hætti.

Skólaheimsókn gekk vel. Börnin byrjuðu á því að fara í íþróttahúsið þar sem var mikið hlaupið og skemmt sér. Að loknum íþróttum fórum við í kennslustund hjá Unni þar sem við unnum í sprota og allir fengu að prófa kennsluefnið Osmo sem unnið er í ipad.
Eftir hádegi byrjuðum við á því að búa til báta úr dagblöðum og fórum svo á Læknistúnið þar sem við reyndum að láta bátana sigla. Við ræddum mikið um vatnavexti og voru börnin mjög áhugasöm um lækinn. Gott væri að hafa aukaföt með í íþróttatöskunni næst þar sem margir urðu ansi blautir.

Útiföt: Rigning hefur einkennt veðrið þessa vikuna og viljum við biðja ykkur um að huga að:

  • aukaföt séu í fataboxi.
  • pollaföt og stígvél séu til staðar á rigningardögum.
  • fara yfir fataboxið þegar barn er sótt í lok dags.
  • taka blautföt heim.
  • hvort stígvél séu blaut að innan, ef svo er þá þarf að þurrka þau heima.

Starfsmannamál: Um s.l mánaðarmót var auglýst eftir kennara til starfa við skólann og er þetta í annað sinn sem við auglýsum á stuttum tíma. Einn umsækjandi sótti um vinnu og hefur hann nú þegar komið í starfsviðtal, það mun koma í ljós um miðjan febrúar hvort viðkomandi taki starfinu.

Starfið gengur vel hjá okkur og gaman hvað börnin eru alltaf lífsglöð og sérstaklega spennt fyrir komandi vori sem er að þeirra sögn í næstu viku.

MEÐ SÓL Í HJARTA,

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2020 Karellen