news

Vikulokabréf 23. ágúst 2019

23. 08. 2019

Sumarfríið hefur farið vel með jafnt unga sem aldna og gaman að sjá hvað allir hafa stækkað og þroskast í fríinu sem segir manni hvað svona frí er auðgandi fyrir sál og líkama.

Þessir fyrstu dagar okkar hér hafa farið í það að koma okkur aftur í rútínu að því leyti sem það er hægt. Við höfum nýtt góða veðrið í gönguferðir og aðeins hefur verið kíkt í berjamó. Í dag kom blessaða rigningin og var það ánægjuleg fagnaðarstund þar sem mynduðust pollar.

„Fyrsta skóflustungan“ að nýjum leikskóla: Ég vil byrja á því að þakka ykkur kærlega fyrir það hvað þið tókuð vel í þetta brambolt okkar með börnin niður í grunnskóla. Hátíðarstundin tókst einstaklega vel, veðrið, sólin og börnin skörtuðu sínu fegursta. Gunnlaugur sveitarstjóri helt stutt ávarp og að því loknu sungu allir lagið okkar „Með sól í hjarta“ . Leikskólastjóri bað einn nemanda af hvoru skólastigi ( leikskóli/Eydís Ósk og grunnskóli/Kristín Eir) að koma til sín. Því næst fóru nemendur með sínum skólastjóra ofaní grunninn þar sem þær Eydís Ósk og Kristín Eir mokuðu með gröfu yfir steina sem búið var að mála á einkunnarorð beggja skólanna. Að því loknu voru veitingar bornar fram, kleinur, skúffukaka, ávextir, djús og kaffi. Hægt er að lesa um viðburðinn inn á facebooksíðu Borgarbyggðar.

Lærum og leikum með hljóðin. Skólanum barst gjöf frá Bryndísi Guðmundsdóttur talmeinafræðingi þar sem hún ásamt samstarfsaðilum er að gefa öllum leikskólum á landinu þjálfunarefni sem bætir framburð barna, eykur orðaforða og undirbýr læsi. Sjá nánar inn á heimasíðu Borgarbyggðar. Þetta efni þekkjum við hér vel og höfum nýtt okkur það til þjálfunar og náms, þökkum kærlega fyrir okkur.

Dagarnir hafa verið mjög annasamir hjá okkur þessa vikuna þar sem ekki er orðið fullmannað hér í húsi. Töluverðar breytingar eru á starfsmannahópnum, verið að vinna að því ötullega að ráða starfsfólk í stöður. Hér fyrir neðan lista ég upp það sem nú þegar er ákveðið.

  • Dagný er farin í fæðingarorlof en hún á von á sér 15. September.
  • Ingibjörg Kristleifsdóttir tekur við hennar starfi formlega þann 1. september en hún kíkti í smá heimsókn til okkar í gær og í fyrradag sem gerð mikla lukku. Inga eins og hún er alltaf kölluð verður deildarstjóri inná gulu deild og staðgengill leikskólastjóra í fjarveru Dagnýjar.
  • Kristjana okkar kemur aftur til vinnu 1. september eftir fæðingarorlof.
  • Embla ætlar að hverfa til annarra starfa og hætti störum hjá okkur þann 28. ágúst n.k. Við þökkum henni kærlega fyrir skemmtilega samveru og við segjum „Takk fyrir matinn hann var góður“
  • Ranka ætlar að taka við matráðstarfinu af Emblu en hún er því vel kunnug þar sem hún var hér matráður áður en hún fór í fæðingarorlof 2016.
  • Steinunn Arna er flutt í Borgarnes og mun hverfa til annarra starfa þarfa þar um n.k mánaðarmót. Við þökkum henni kærlega fyrir ánægjuleg kynni og skemmtilega samveru.
  • Verið er að vinna að því að fá fólk til starfa í þær stöður sem eru lausar, vonandi náum við að fullmanna skólann sem fyrst.

Á komandi skólaári verða börnin 23 að tölu eða þegar við höfum tekið inn eitt barn um miðjan september. Við höfum ekki svigrúm til að taka inn fleiri börn fyrr en á næsta hausti þá í nýjum leikskóla.

Hlökkum til samstarfsins og samverunnar á komandi vetri

MEÐ SÓL Í HJARTA.

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2020 Karellen