Karellen
news

Vikulokabréf 21. janúar 2019

21. 01. 2019

Vikulokabréf 21. janúar 2019

Komiði sæl kæru foreldrar. Því miður kom vikulokabréfið ekki á áætluðum tíma í síðustu viku en nú bætum við úr því.

Í dag byrjaði nýtt barn hjá okkur á Hnoðrabóli, og viljum við bjóða hann hjartanlega velkominn í Hnoðrabólsfjölskylduna. Starfið þessa vikuna mun því riðlast að einhverju leyti á meðan aðlögun fer fram, en það ætti ekki að vera mikið.

Síðasta vika:

Á mánudaginn fengum við gesti, þau Mumma og Jóu á Háafelli, en þau lásu m.a. fyrir okkur sögur um geitur og Mummi fór yfir hvernig rusl er flokkað með elsta hópnum. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna.

Á þriðjudaginn var spiladagur. Mörg börn komu með spil eða púsl með í leikskólann. Allur tími sem gafst þann daginn var nýttur til að spila. Það var gaman að sjá hvernig börnin náðu að spila sín á milli og hvernig þeim tókst til að kenna spilin sín.

Á miðvikudaginn var skipulagsdagur starfsmanna og því var leikskólinn lokaður þann dag. Dagurinn var vel nýttur hjá starfsmönnum sem fengu fyrst fyrirlestur um byrjendalæsi, nýttu svo þann tíma sem gafst í að skipuleggja starfið framundan. Að lokum fengum við heimsókn frá starfsmönnum barnaverndar í Borgarbyggð, þar sem þær kynntu fyrir okkur starf og hlutverk barnaverndar.

Á fimmtudaginn fór öll Gula-deild saman í göngutúr. Þau eru vön að fara í tveimur hópum og því var þetta uppbrot á venjulegri göngu. Börnin fóru með snjóþotur og renndur sér niður túnið fyrir aftan húsið hennar Steinu.

Á föstudaginn var föstudagurinn Dimmi. Þá máttu börnin koma með vasaljós og það var mikið fjör. Við höfðum meira en minna slökkt ljós allann daginn, lékum með vasaljós og lásum við rafmagnskertaljós svo fátt eitt sé nefnt. Elstu börnin fóru í gönguferð eins og alltaf á föstudögum. Í þetta sinn fóru þau að renna í brekkunni fyrir neðan fjárhúsin sem var ótrúlega gaman.

Þessi vika:

Sleðadagur á morgun: Það sem vakti mesta lukku síðustu vikuna var að fá loksins snjó og prófa að renna sér og leika í snjónum. Samkvæmt veðurspánni væri morgundagurinn vel til þess fallin að börnin komi með snjóþotur eða sleða í leikskólann á morgun. Viljum við svo biðja foreldra um að taka sleðana með heim aftur í lok dags.

Náttfata- og bangsadagur: Á miðvikudaginn verður náttfata- og bangsadagur. Þá mega börnin koma í náttfötum í leikskólann og taka með sér einn bangsa (muna að merkja bangsana).

Á föstudaginn er svo bóndadagur, upphaf Þorra. Við munum nýta næstu vikur í að fræðast um lífið í gamla daga, syngja þorraþræl og fleirri vetrarlög og læra orð tengd þorranum og vetrinum.

Bestu kveðjur með sól í hjarta

Starfsfólk Hnoðrabóls

© 2016 - 2024 Karellen