Karellen
news

Vikulokabréf 1. mars 2019

01. 03. 2019

Kæru foreldrar.

Vikulokabréf fyrir síðustu viku náðum við ekki að klára vegna veikinda. Þá viku er nú þegar búið að skrá sem “ Veikindaviku ársins“, það verða ekki fleiri þannig vikur á okkar dagatali á þessu ári „því miður.“

Börnin hafa verið að ná upp þrótti eftir veikindin í þessari viku og eins gott að allir séu klárir í fjörið fyrir næstu viku en þá er bollu-, sprengi-og öskudagurinn.

Veðrið hefur verið frekar blautt þessa vikuna og viljum við biðja ykkur að fylgjast með fataboxunum og fylla á þau ef þörf krefur. Einnig að hafa útiföt í samræmi við hitastig og veður.

Góðverkavikan hefur alltaf verið okkur hugleikin þar sem leiðarljós hennar er svo hjartnæmt og gefandi. Vonandi hafið þið fengið að njóta hennar heima en skemmtilegar umræður sköpuðust hér og börnin unnu verkefni tengd vikunni.

Foreldraviðtöl barna á Gulu deild fóru fram í þessariviku. Þau hafa gengið mjög vel og viljum við þakka ykkur foreldrum kærlega fyrir gott og gefandi samtal um barn/börn ykkar. Við viljum árétta að alltaf er hægt að óska eftir samtali á öðrum tímum.

Húsnæðismál Hnoðrabóls : Hönnuður er þessa dagana að leggja lokahönd við að klára þær verkfræðiteikningar af húsinu sem þurfa að vera tilbúnar svo hægt sé að gera útboð á verkinu/viðbygging við GBf að Kleppjárnsreykjum.Lóðahönnuður Sigurbjörg Áskelsdóttir hjá Landlínum er að hefja sína vinnu við að hanna lóðina. Dagný og Sjöfn hafa setið fund með Helgu Jensínu skólastjóra GBf, formanni byggingarnefndar, Mumma og Ragnari Frank sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Borgarbyggðar þar sem farið var yfir eitt og annað sem snýr að skipulagi leik-og grunnskólalóðar.
Starfsfólk Hnoðrabóls nýtti starfsmannfundinn í gær til ræða leikskólalóðina og í framhaldi af því mun leikskólastjóri heyra í hönnuði. Það er í mörg horn að líta, næsta verkefni okkar er að meta það hvað þurfi að endurnýja af húsgögnum og lausabúnaði í samvinnu við fræðslustjóra. Það eru spennandi tímar framundan en með haustinu munum við hefja vinnu við að skoða hvernig samstarfi og samvinnu þessa tveggja skólastiga verður háttað undir sama þaki. Við munum reyna að upplýsa ykkur um gang mála eins og kostur er.

Uppáhaldsdagar barnanna eru í næstu viku!

Bolludagur: Þá borðum við fiskibollur í hádeginu og rjómabollur í kaffinu.

Sprengidagur: Þá mun Embla matráður framreiða saltkjöt og baunir á borð handa okkur. Börnin borðuðu mjög vel af baunasúpunni í fyrra svo ákveðið hefur verið að nota stærsta pottinn að þessu sinni undir hana. Það er svo gaman að sjá hvað börnin eru áhugasöm og dugleg að borða þjóðlegan mat sem okkur finnst mjög ánægjulegt og mikilvægt er að halda matarmenningunni á lofti.

Öskudagur: Kannast einhver við hann?

Þann dag komum við í búningum eða furðufötum og gerum okkur glaðan dag í sprelli og fjöri. Dagskrá dagsins verður birt á mánudaginn.

Við munum fræða börnin um gamlar hefðir sem tengjast þessum dögum og syngja lög sem tilheyra þeim.

Starfsmannamál: Elsa og Kristjana eru báðar komnar í fæðingarorlof og eiga þær von á sínum börnum í byrjun mars.

Eins og áður hefur komið fram þá hafa Katrín og María hafið störf í þeirra stað.

Dagný er að fara erlendis um miðja næstu viku og kemur aftur til starfa 14. mars.

Góða helgi.

MEÐ SÓL Í HJARTA
Starfsfólk Hnoðrabóls

© 2016 - 2024 Karellen