Karellen
news

Vikulokabréf 10. júlí 2018

10. 07. 2018

Komiði sæl kæru foreldrar

Nú er komið að síðasta vikulokabréfinu þetta skólaárið því við lokum skólanum á eftir og opnum aftur 9. ágúst.

Síðasta miðvikudag, 4. júlí var útidótadagur hjá okkur og miðvikudaginn á undan, 27. júní var sápukúludagur. Svona dagar brjóta aðeins upp daginn hjá okkur og krakkarnir hlakka mikið til þegar þau fá að koma með eitthvað að heiman í leikskólann. Það er aðdáunarvert að sjá hvaða börnin eru tilbúin að lána dótið sitt og leyfa öðrum að prófa.

2. júlí fluttu 6 börn af Rauðu deild yfir á Gulu deild til að undirbúa inntöku nýrra barna í ágúst. Það hefur gengið mjög vel og mikið stolt í litlu krílunum yfir að vera komin á eldri deildina.

Við höfum farið í nokkra góða göngutúra eftir hádegi með þau börn sem ekki sofa, þau hafa fengið nesti með og borðað kaffið úti og komið svo heim rétt í tæka tíð fyrir heimferð. Í einni svona göngu var farið niður að á með háf og börnin spreyttu sig á að veiða með háfnum.

Síðasta fimmtudag, 5. júlí fórum við með öll börnin fram í Reykholt eftir hádegi. Það var nesti og leikir á Eggertsflöt og svo var lesin saga og börnin svo sótt af foreldrum í Höskuldargerði í Reykholti. Þetta er dágóð vegalengd að ganga og við príluðum yfir girðingar, hittum hesta, festum stígvélin í drullu, óðum vatn og gengum í skógi. Sannkölluð ævintýraferð. Við þökkum foreldrum fyrir hvað allir tóku vel í þetta með stuttum fyrirvara.

Dagatal fyrir ágústmánuð verður sent heim strax eftir sumarfrí.

Við vonumst til að allir njóti sumarfrísins og samveru með fjölskyldunni í sumar. Hlökkum til að hitta ykkur hress og kát að loknu sumarfríi. Leikskólinn opnar aftur fimmtudaginn 9. ágúst kl: 7:45.

Sumarkveðjur MEÐ SÓL Í HJARTA frá starfsfólki Hnoðrabóls

© 2016 - 2024 Karellen