Karellen
news

Vikulokabréf 9. nóvember 2018

09. 11. 2018

Komiði sæl kæru foreldrar

Því miður kom ekkert vikulokabréf í síðustu viku en nú bætum við fyrir það með tvöföldu bréfi.

Við viljum byrja á að greina frá því að ekki var næg þáttaka á uppeldisnámskeiðinu sem var auglýst nú í nóvember og því fellur það niður. Við munum taka aftur stöðuna eftir áramót og stefnum á að halda námskeið þá.

Síðasta vika:
Síðasta vika einkenndist af foreldraviðtölum sem gengu mjög vel og nú hafa foreldrar allra barnanna komið í viðtal. Við viljum endilega hvetja ykkur til að hafa samband ef eitthvað er, því meiri samskipti því betra.

Á föstudaginn kom Daði Freyr frá Furugrund til okkar með danskennslu fyrir elsta árganginn. Það gekk vonum framar og mjög gaman að fá danskennslu inn í skólann. Hann mun koma til okkar 5 föstudaga í röð og þetta er foreldrum að kostnaðarlausu, en leikskólinn og foreldrafélagið skipta kostnaðinum á milli sín. Daði kom aftur í dag og allir hæstánægðir með tímann.

Þessi vika:
Á mánudaginn var starfsdagur hjá öllum leik- og grunnskólum Borgarbyggðar. Fyrir hádegi fórum við að Varmalandi þar sem var námskeið um leiðtogafræðin. Eftir hádegi renndum við svo suður að skoða Krikaskóla og starfið sem þar fer fram. Krikaskóli er í Mosfellsbæ og er fyrir börn á aldrinum 2-10 ára. Það var áhugavert að sjá hvernig þau flétta saman starf leik- og grunnskóla. Það kemur sér vel fyrir komandi flutning leikskólans að Kleppjárnsreykjum að kynna sér vel hvernig hefur gengið á öðrum stöðum að samræma starf leik- og grunnskóla.

Á fimmtudaginn var grænn dagur hjá okkur. Græni dagurinn er alþjóðlegur baráttudagur gegn einelti, við fjölluðum um vináttuna og mikilvægi þess að bera virðingu fyrir hvort öðru. Margir mættu í grænum fötum og svo gerðum við græna mynd.

Næsta vika:
Elsa, deildarstjóri Rauðu deildar verður í fríi frá 15. til 23. nóvember. Dagný og Sjöfn munu leysa hana af á meðan og ef eitthvað er má alltaf heyra í þeim.

Á föstudaginn í næstu viku er Dagur íslenskrar tungu. Við munum byrja daginn á því að fulltrúi frá Landvernd kemur og afhendir okkur grænfánann í þriðja sinn. Síðan er löng hefð fyrir því að við hér á Hnoðrabóli höldum uppá daginn og bjóðum foreldrum í samverustund. Núna verður engin breyting þar á og bjóða börnin foreldra velkomna í leikskólann, samverustund mun hefjast stundvíslega kl. 15:00 á því að börnin syngja nokkur lög og svo sýna þau myndband sem þau hafa unnið að undanfarnar vikur ásamt Kristjönu. Að lokum bjóða börnin uppá pinnakökur sem þau útbúa í næstu viku. Auglýsing fyrir daginn verður send heim og má einnig lesa hér.

Við endum vikulokabréfið núna á ljóði Þórarins Eldjárns, Íslenskuljóð, sem við höfum æft okkur að syngja undanfarnar vikur og munum syngja á Degi íslenskrar tungu.

Íslenskuljóð

Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var,
og hún á orð sem geyma gleði´ og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.

Á vörum okkar verður tungan þjál,
þar vex og grær og dafnar okkar mál.
Að gæta hennar gildir hér og nú,
það gerir enginn - nema ég og þú.

Þórarinn Eldjárn

Bestu kveðjur með sól í hjarta, starfsfólk Hnoðrabóls

© 2016 - 2024 Karellen