Karellen
news

Vikulokabréf 25. janúar 2019

25. 01. 2019

Sælir kæru foreldrar.

Fyrst viljum við greina frá því að nýr starfsmaður byrjaði hjá okkur á fimmtudaginn, Katrín Pétursdóttir á Helgavatni. Við bjóðum hana sérstaklega velkomna en hún verður hér í 50% starfi til að byrja með og verður svo í fullu starfi á Rauðu deild fram að sumri. María á Hellubæ er nú komin í 100% stöðu, hún er að mestu á Gulu deild en einnig afleysing á Rauðu þegar þarf.

Þessi vika

Á þriðjudaginn var sleðadagur sem gekk vel, þrátt fyrir kuldann sem var þann dag.

Á miðvikudaginn var náttfata- og bangsadagur. Þá fengu bangsarnir að taka mikinn þátt í starfi dagsins, í samverustund fyrir hádegi var dansaður bangsadans og allir teiknuðu mynd af bangsanum sínum. Myndirnar má nú sjá á ganginum.

Bóndadagur: Í vikunni hafa börnin á Gulu deild unnið bóndadagsmyndir í listakjallara. Á myndunum eru bændur að sinna bústörfum en þau hafa einnig gefið greinagóða lýsingu á hvað er að gerast á myndunum. Þessar myndir hafa nú verið hengdar upp á ganginum.

Rauða deild
Kuldinn hefur sett strik í reikninginn hvað varðar útiveru hjá Rauðu deild en þau hafa aðeins farið út 2x í þessari viku. Þau kíktu út að renna í 20-30 mín á sleðadeginum og fengu svo fulla útiveru í gær. Elstu tvö börnin á deildinni hafa reyndar farið aðeins oftar út. Það vakti mikla lukku að komast út í snjóinn í gær og mest allur tíminn fór í að smakka snjóinn og kanna. Þar sem frostið beit of fast til útiveru í dag brugðum við á það ráð að sækja snjó út, blanda við hann vatnslitum og mála – það var mjög spennandi.

Aðlögunin hefur gengið vel og ætti skipulag lítið að riðlast í næstu viku.

Næsta vika:

Í næstu viku er tannverndarvika. Þá fræðumst við um tennurnar okkar, hvað sé hollt fyrir tennurnar að borða og mikilvægi þess að bursta tennurnar vel.

Á miðvikudaginn verður bíó. Þá horfum við á stutta kvikmynd.

Á föstudaginn er svo dagur stærðfræðinnar. Þann dag ræðum við um tölur og stærðir enn meira en venjulega.

Bestu kveðjur, með sól í hjarta - Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2024 Karellen