news

​Vikulokabréf 21. desember 2018

21. 12. 2018

Komiði sæl kæru foreldrar.

Það kom ekkert vikulokabréf í síðustu viku og biðjumst við velvirðingar á því.

Töluvert hefur borið á magapest síðustu vikurnar og vonum við að allir verði lausir við pestina fyrir jólin.

Síðasta vika einkenndist af jólaundirbúningi og jólagleði. Á þriðjudaginn 11. desember fór skórinn út í glugga. Hér á Hnoðrabóli er hefð fyrir því að hengja upp jólasokka á báðum deildum og jólasveinarnir gleyma ekki að koma við með eitthvað skemmtilegt handa okkur. Áður en kíkt er í sokkinn er lesið úr ljóði Jóhannesar úr Kötlum um þann svein sem hafði komið um nóttina og á Gulu deild er líka lesið úr bókinni Jólasveinarnir 13 eftir Brian Pilkington. Það er alltaf jafn gaman að sjá gleðina sem fylgir þessum töfraheimi jólasveinanna.

Miðvikudaginn 12. desember gengum við í kringum jólatréð rétt fyrir mat og fengum svo jólamat að hætti Emblu, hamborgarhrygg og meðþví og smá vanilluís í eftirmat.

Á Fimmtudaginn 13. desember var kirkjuferð. Þann dag var jólakaffi í leikskólanum þar sem við fengum heitt kakó og piparkökur. Svo komu foreldrar og sóttu börn sín kl. 15:15 og kl. 15:30 vorum við mætt í Reykholtskirkju þar sem Sr. Geir tók vel á móti okkur, sagði okkur sögur og við sungum jólalög.

Þessa vikuna höfum við gert mikið jólaföndur sem flest fór heim með börnunum í gær. Börnin unnu bæði einstaklingsverkefni og samvinnuverkefni sem voru hengd upp á veggina. Við nýttum þann verðlausa efnivið sem til var og gaman að sjá hvernig börnin nýttu hann í jólamyndir.

Fyrsta vikan eftir áramót fer í rólegheit og föstudaginn 4. janúar kveðjum við jólin með jólaballi. Jólaballið er samastarfsverkefni leikskólans og foreldrafélagsins. Foreldrar mæta kl. 14:30 og við dönsum í kringum jólatréið og hver veit nema Jóli kíki með smá pakka handa börnunum. Að lokum fáum við okkur kaffi þar sem allir koma með eitthvað á hlaðborð. Við bendum á að jólaballið er eingöngu ætlað leikskólabörnum og því ekki hægt að koma með systkini.

Dagatal fyrir janúarmánuð fór heim í gær og má líka finna hér á heimasíðunni.

Þar sem engin börn verða í leikskólanum milli jóla og nýárs verður leikskólinn lokaður þá daga. Leikskólinn opnar aftur kl. 7:45 miðvikudaginn 2. janúar.

Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.

Bestu kveðjur með sól í hjarta, starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2020 Karellen