Karellen

Leikskólinn Hnoðraból/Dagheimili Reykholts - og Hálsahrepps var stofnaður af áhugasömum foreldrum í sveitinni 9. september 1982. Fyrstu árin var leikskólinn staðsettur í Smiðjunni í Reykholti og Læknishúsinu að Kleppjárnsreykjum en lengst af var hann til húsa í Litla Hvammi. Reykholtsdalshreppur tók við rekstri leikskólans árið 1986. Árið 1991 keypti hann hús á Grímsstöðum undir leikskólastarfsemina og hefur hann verið þar til húsa síðan. Þegar húsið var keypt var efnt til hugmyndasamkeppni um nafn á leikskólann og Hnoðraból varð fyrir valinu, átti Halldóra Þorvaldsdóttir í Reykholti hugmyndina að því.

Starf Hnoðrabóls hefur verið farsælt í gegnum áratugina og hefur hann notið mikillar velvildar nærsamfélagsins alla tíð. Nærsamfélagið hefur mótað og auðgað starf skólans, hvatt til samskipta, samvinnu og vináttu sem er hverjum skóla afar dýrmætt. Vináttan og samstarf við heiðurshjónin Jóhönnu Steinunni Garðarsdóttur og Guðmund Kristinsson, ábúendur að Grímsstöðum, hefur verið Hnoðrabóli afar gefandi í gegnum áratugina.

© 2016 - 2024 Karellen