Karellen
news

Fréttabréf í júní

12. 06. 2020

Kæru foreldrar

Tíminn frá því að Covid -19 bankaði uppá hefur verið mjög annasamur en jafnframt mjög ánægjulegur að mörgu leyti því börnin komu öll svo glöð aftur í maí. Eins og við höfum áður greint frá þá breyttum við starfinu aðeins þannig að börnin hafi meira val, bæði inni og úti, á milli níu og tíu og svo aftur frá tíu til ellefu. Valið hefur gengið mjög vel og vakið mikla lukku hjá börnunum svo við eigum örugglega eftir að vinna meira með þetta fyrirkomulag á komandi skólaári.

Í maí var mikið um að vera hjá skólahóp og langar okkur að greina ykkur sérstaklega frá helstu viðburðunum:

Skóladagurinn: Skólahópur fór í sína síðustu ferð í grunnskólann 19. maí þar sem þau fóru með skólabíl að heiman og aftur heim í lok skóladags. Þessi heimsókn var sett upp þannig að þau tóku þátt í hefðbundu skólastarfi allan daginn og voru þannig að stíga sín fyrstu skref í grunnskólanum án kennara frá okkur í leikskólanum. Helga var þó á staðnum, uppá punt og til taks ef á þurfti að halda. Skólaheimsóknirnar hafa gengið vel í vetur og skilað miklu. Við viljum þakka grunnskólanum fyrir góðar móttökur og starfsfólkinu okkar sem stóð vaktina og þá sérstaklega Helgu sem fór alltaf með. Þetta var ákveðin áskorun og hefði ekki verið framkvæmanleg nema fyrir trú starfsmanna á verkefninu. Vil ég nota tækifærið og þakka öllu starfsfólki Hnoðrabóls fyrir sitt framlag til verkefnisins og foreldrum fyrir að taka vel í þetta og mæta alltaf með bílstóla fyrir börnin sín.

Útskriftarferð í Vatnaskóg heppnaðist einstaklega vel. Veðrið var mjög gott, börnin tóku þátt í mörgum ævintýraverkefnum. Lagt var af stað með stórri rútu frá Hnoðrabóli og komið við í Andabæ þar sem útskriftarbörnin þar komu með okkur. Í rútunni vorum við með flatkökur og ávexti. Þegar við komum í Vatnaskóg voru útskriftarbörnin í Klettaborg mætt og við fengum góðar móttökur frá Fannari og Þráni sem sáu um dagskrána. Þeir byrjuðu á að syngja með okkur nokkur lög og sýna okkur myndir af svæðinu. Því næst fórum við í gönguferð um staðinn og í leik í skóginum og allir áttu að hlaupa einn hring um íþróttavöllinn. Í hádeginu fengum við pítsu, svo fórum við í bátsferð á vatninu. Þar á eftir fórum við í smá göngu í skóginum og settumst niður í útikirkju staðarins, þar sem við heyrðum söguna af Kúrímúrímúr. Kúrímúrímúr er vera sem býr í litlu húsi í skóginum, tekur saman óskilamuni á svæðinu og hugsar vel um umhverfi og menn, hann getur stækkað og minnkað að vild og á því auðvelt með að fela sig. Kúrímúrímúr er mjög feiminn og fáir hafa séð hann en við freistuðum gæfunnar og bönkuðum uppá, hann faldi sig en hafði skilið eftir heitt kakó fyrir okkur. Næst fórum við í hoppukastala sem komið hafði verið fyrir inni í íþróttahúsi og í lokin fengum við skúffuköku í kaffitímanum þar sem var smá kveðjustund og komið að heimferð.

Útskrift í Logalandi; Undirbúningur að útskriftinni var frekar flókinn vegna Covid og við þurftum að finna leið til halda útskriftina útfrá samkomubanninu. Niðurstaðan varð sú að halda útskriftina föstudaginn 29. maí í Logalandi kl. 16.00. Foreldrum, systkinum, ömmum og öfum var boðið. Fríður hópur fjölskyldna mætti, útskriftabörnin vísuðu þeim til borðs sem þau voru búin að skreyta hvert og eitt fyrir sína fjölskyldu og passað var upp á 2 metra regluna. Dagskráin hófst á því að Sjöfn greindi frá fyrirkomulagi athafnarinnar, því næst fóru börnin upp á svið og sungu tvö lög fyrr gestina. Dagný afhenti þeim hjarta með vísu um samveruna og hjartað vísar í okkar gildi MEÐ SÓL Í HJARTA. Að því loknu afhenti Sjöfn útskriftarbörnum umslag með viðurkenningarskjali og tveimur hópmyndum. Helga afhenti hverju og einu barni Blæ bangsann sinn sem er líka að hætta í leikskóla eins og þau og tímabært að hann fái að kúra heima með þeim að lokinni skólagöngu. Grunnskólinn ætlar að taka upp vináttuverkefnið núna í haust og því er mikilvægt að passa uppá bangsana því þeir fá nýtt heimili á Kleppjárnsreykjum í haust. Því næst var myndataka uppá sviði af hópnum og þar á eftir var frumsýnd heimildarmynd um Hnoðraból sem börnin gerðu. Þó svo að tæknin væriað stríða okkur þá skilaði myndin sínu. Að myndasýningu lokinni báru starfsmenn veislukaffi á hvert borð sem Ranka hafi undirbúið og bakað. Hver fjölskylda sat við sitt borð og fagnaði með sínu barni sem var yndislegt. Svona viðburður er alltaf gleðilegur en samt sérstakur þar sem saknaðartilfinning brýst fram, að hugsa sér að þau séu virkilega að yfirgefa okkur öll á næstu vikum þessi frábæru börn sem geta allt í komandi framtíð.Takk fyrir allt kæru foreldrar útskriftabarna fyrir samveruna, samstarfið og lánið á börnunum ykkar. Við óskum ykkur öllum bjartrar framtíðar.

Útskrift og fjör dagurinn: Útskriftardagurinn var haldinn hátíðlegur hér í húsi áður en útskriftarbörnin héldu með rútu í Logaland kl. 15 til að undirbúa útskriftarhátíðina. Dagurinn heppnaðist vel þrátt fyrir hávaða rok sem reyndar stýrði dagskrá dagsins í aðrar áttir. Við sulluðum í bakgarðinum og bjuggum til dýrindis drullukökur og súpur með útrunninni þurrvöru frá Rönku. Við héldum danspartý með blöðrum, fengum pítsu í hádegismat og bananabrauð og kleinu í kaffinu. Í hvíldinni horfði Gula deild á heimildamyndina sem var sýnd fyrir fjölskyldurnar í útskriftinni í Logalandi.

Aðrar upplýsingar

Leikskólabyggingin: Verktaki er á áætlun með húsið, ef ekkert sérstakt kemur upp á þá verður það tilbúið til afhendingar 15. ágúst sem er dagsetningin samkvæmt útboði. Framkvæmdir við lóðina eru ekki hafnar formlega en öll undirbúningsvinna er að verða tilbúin. Framkvæmdir ættu að geta hafist fljótlega ef þær er ekki nú þegar hafnar,það er byggingarverktaki sem sér um þær. Um mánaðarmótin júlí- ágúst munum við betur sjá hver staðan er á framkvæmdunum og þá er hægt að skipuleggja flutninginn út frá þeim upplýsingum. Ljóst er að við munum opna Hnoðraból á Grímsstöðum eftir sumarleyfi, annað er ekki hægt að gefa út að svo stöddu.

Börnin: Í heildina hætta 9 börn hjá okkur sem hefja skólagöngu í haust og það eru 10 börn sem byrja hjá okkur í haust þegar nýja skólabyggingin verður tekin í notkun. Börnin eru flest fædd 2018 og 2019, því er barnahópurinn heldur betur að yngjast upp hjá okkur.

Starfsmannahópurinn:Eins og áður hefur verið greint frá þá hætti Þuríður formlega hjá okkur í lok apríl en hún hefur aðeins verið að koma inn í júní þegar hún hefur getað og mun hún gera það fram að sumarlokun. Við auglýstum eftir leikskólakennurum til starfa í maí og bárust 4 umsóknir, úr þeim hópi hafa tveir umsækjendur verið ráðnir inn.Anja Kokoschka var ráðin til starfa í síðustu viku og bjóðum við hana velkomna í Hnoðrabólshópinn. Hún hefur búið um nokkurt skeið í Lindarbæ ásamt sínum manni og syni. Anja verður mest inn á Rauðu deild núna en hún mun verða á Gulu deild í haust. Kristín Ásdís Snorradóttir sem hefur unnið við skólann áðurmun byrja eftir sumarlokun og mun hún starfa inni á Rauðu deild en hún er okkur vel kunnug og býr með sinni fjölskyldu á Litla-Kroppi, bjóðum við hana aftur velkomna í hópinn. Dagný hefur minnkað við sig starfshlutfall og vinnur eftir hádegi í júní.

Sumarlokun: ég vil minna á að sumarlokun er rétt handan við hornið. Síðasti dagurinn sem er opið hjá okkur fyrir sumarfrí er þriðjudagurinn 7. Júlí en við lokum frá og með 8. júlí.Við opnum leikskólann aftur 6. ágúst hér á Grímsstöðum. Ég vil nota tækifærið og óska ykkur góðs frís og megi veðrið verða eins gott og hægt er með sól og blíðu. Eins viljum við minna á mikilvægi þess að láta vita ef börnin verða í fríi áður en til sumarlokunar kemur.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem koma að Hnoðrabóli kærlega fyrir samstöðuna í Covid. Það hjálpaði mikið til hvað allir voru skilningsríkir í þessum kerfjandi aðstæðum. Við komum öll sterkari út úr þessari reynslu, bæði börn og fullorðnir J

Bestu sumarkveðjur með sól í hjarta

Sjöfn og starfsfólk Hnoðrabóls

© 2016 - 2024 Karellen