news

Vikulokabréf 7. júní 2019

07. 06. 2019

Kæru foreldrar.

Starfið i maí hefur einkennst af skemmtilegum viðburðum en ekki er hægt að segja neitt jákvætt um blessaða norðanáttina.

Gönguferðir á Eggertsflöt hafa gengið mjög vel og gaman að sjá hver færni barnanna til að takast á við ný verkefni þar aukast með hverri ferð. Við höfum bara heyrt miklar ánægjuraddir frá foreldrum og börnum með þessar ferðir sem er svo skemmtileg viðbót við okkar dagalega starf. Ekki má gleyma starfsmönnum sem leggja mikinn metnað og áhuga í þessar ferðir og án þeirra áhuga væru þær ekki farnar. Við höldum áfram í júní að njóta á miðvikudögum þess sem Eggertsföt hefur upp á að bjóða.

Hjóladagar hafa gengið vel og er ánægjulegt að sjá hvað börnin eru dugleg að fara eftir hjólareglum og leyfa öðrum að prufa sitt hjól.

Leiðtogadagur og fjör var viðburður sem var haldinn þann 24. maí í stað útskriftar elstu barna en að þessu sinni eru engin börn sem hefja grunnskólagöngu í haust frá okkur. Börnin buðu að þessu sinni systkinum sínum í heimsókn. Leikskólabörnin skipulögðu daginn sjálf, ákváðu hvaða verkefni áttu að vera í boði, völdu sér verkefni og undirbjuggu og skipulögðu það með kennaranum ásamt því að að hafa til veitingar o.fl. Undirbúningsvinnan var þeirra leiðtogahlutverk, gestirnir sáu ekki þá vinnu sem var heilmikið eins og við vitum að það þarf að huga að mörgu þegar tekið er á móti gestum. Okkur fannst þessi dagur heppnast einstaklega vel og gaman að fá syskinin í heimsókn og hafa daginn barnvænan. Þessi leiðtogadagur hafði aðra nálgun en verið hefur þar sem vinna barna var meiri við undirbúning en verkefni á sjálfum deginum en okkur fannst að þau yrðu að hafa frjálsar hendur með að fylgja sínum systkinum. Þökkum öllum þeim sem komu og það var yndislegt að sjá hvað allir nutu sín.

Hreyfivika UMFÍ við höfum alltaf verið með íþróttamót þar sem börnin spreyta sig á frjálsum íþróttum og þrautabraut í litlum hópum þar sem passað er vel upp á liðsheild og að hver og einn er að keppa við sjálfan sig en ekki aðra. Þannig náum við að efla hvert barn fyrir sig út frá getu og áhuga. Dagurinn heppnaðist vel og allir voru glaðir að fá viðurkenningu fyrir sína þátttöku.

Vorferð foreldrafélagsins á Akranes var farin á Uppstigningardag og heppnaðist hún einstaklega vel. Að þessu sinni var ákveði að fara með „Landkrabbana“ að skoða Langasand þar sem hægt var að sulla, moka, hlaupa og skrattakollast í sjónum í ágætis veðri. Að dvöl lokinni þar var haldið upp í skógrækt, pylsur grillaðar í góðu skóli í skóginum. Ánægjulegt var hversu margir komu og yndislegt að eiga svona samveru saman með börnum okkar. Stjórn foreldrafélagsins skipulagði ferðina og greiddi allan kostnað, hlökkum til næstu ferðar.

Ömmu og afa kaffi s.l þriðjudag sló alveg í gegn. Það kom í ljós að börnin á Hnoðrabóli eiga hóp af ömmum og öfum sem mættu áhugasöm til að heimsækja börnin. Sum hver tóku sér frí úr vinnu og keyrðu marga tugi kílómetra til þessa að fá kaffisopa og skoða dótið með sínu barnabarni/börnum. Það skapaðist skemmtileg stemming, börnin voru svo stolt og sýndu ömmum og öfum svo mikla væntumþykju.

Starfsmannamál: Eins og áður hefur verið greint frá þá hætti Katrín hjá okkur um s.l mánaðarmót. Við þökkum við henni kærlega fyrir góða samveru og óskum henni góðs velfarnaðar við sveitastörf og nám í búvísindum.
Steinunn Arna Atladóttir búsett á Grímsstöðum byrjaði hjá okkur s.l mánudag en hún var að ljúka BS námi í íþróttafræðum frá USA. Steinunn verður allavega hjá okkur fram á haustið og bjóðum við hana velkomna í hópinn. Í september kemur Ingibjörg Kristleifsdóttir leikskólakennari og Kristjana Karlsdóttir kemur til starfa.

Vinnuskólinn: Ung stúlka Dagbjört Rós frá Kjalvararstöðum kemur hér í vinnu n.k þriðjudag á vegu vinnuskólans. Hún mun vera hjá okkur í 3 vikur og vinna frá kl. 9-12. Hlökkum til að fá hana í starfsmannahópinn.

Hvítasunnuhelgin er framundan, það er lokað hjá okkur mánudaginn 10. júní, þá er annar í hvítasunnu.


MEÐ SÓL Í HJARTA

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2020 Karellen