Karellen
news

Vikulokabréf 5. október 2018

05. 10. 2018

Sælir kæru foreldrar

Þessi vika:
Á mánudaginn kom 1. bekkur Kleppjárnsreykjadeildar Grunnskóla Borgarfjarðar í heimsókn til okkar að Hnoðrabóli, ásamt kennara. Elsti árgangurinn okkar tók á móti börnunum ásamt Dagnýju. Á meðan voru yngri börnin á Gulu deild úti í stóra kofa og þar sem veðrið leyfði ekki útivist fyrir Rauðu deild þá fóru þau niður í listakjallara og máluðu mynd og léku með hrísgrjón. Þessi heimsókn er árleg og liður í samstarfsáætlun leik- og grunnskóla. Þegar 1. bekkur mætti var þeim boðið í samverustund og svo var leikið á stöðvum í flestum rýmum hússins, enda voru þarna samankomin 16 börn á aldrinum 4-6 ára. Tíminn leið hratt og allir léku vel. Þessi heimsókn var einstaklega skemmtileg, vel heppnuð og gaman að hafa svona gott samstarf á milli skólastiga.

Á þriðjudaginn var kynningarfundur um Leik- og grunnskóla að Kleppjárnsreykjum. Það var ánægjulegt að sjá hve vel var mætt á fundinn og stefnir allt í góða samvinnu á milli þessara tveggja skólastiga þegar þau verða komin í sama húsnæði.

Á miðvikudaginn var rugludagur hjá okkur á Hnoðrabóli. Þá mættu margir í úthverfum fötum, eitthvað af myndum á veggjunum voru á hvolfi, börnin þurftu að hjálpa kennurunum að klæða sig úr útifötunum o.s.frv. Þetta vakti allt mikla lukku hjá börnunum.

Í dag, föstudag, er alþjóðlegur dagur kennara. Þá voru teknar umræður með hverjum hóp fyrir sig í samverustund, um sýn barnanna á hlutverk kennara. Þar sköpuðust skemmtilegar umræður. Til gamans fylgir hér neðst listi yfir það sem börnin sögðu að kennara gera.

Næsta vika:
Á föstudaginn verður bleikur dagur hjá okkur, eins og um allt land, þar sem landsmenn eru hvattir til að klæðast bleiku til stuðnings við bleiku slaufuna, árverknisátak krabbameinsfélagsins.

Sérfræðiþjónusta
Við njótum góðrar sérfræðiþjónustu á vegum sveitafélagsins og þess má geta að Harpa sálfræðingur kom til okkar á þriðjudaginn, Berglind og Bjarnfríður talmeinafræðingar komu á fimmtudaginn og á mánudaginn næsta kemur Ásta Björk sérkennsluráðgjafi.

Bestu kveðjur með sól í hjarta
starfsfólk Hnoðrabóls




Umræður í samverustund á alþjóðlegum degi kennara 5.október.

Svör barnanna á Hnoðrabóli við spurningunni „Hvað gera kennarar?“

Rjúpuhópur

  • Skipta bleiu
  • Sækja vagninn
  • Setja myndir uppá vegg
  • Kenna Alex að lesa
  • Kenna Alex að lita
  • Fara í hvíld

Spóahópur

  • Tala við Sjöfn
  • Skrifa
  • Setja salt ofaní graut
  • Gefa börnunum að borða
  • Segja bæ við krakkana
  • Segja þeim að sitja
  • Segja þeim að knúsa mömmu
  • Segja börnum að skila bókum
  • Hlusta með eyrum og horfa með augum
  • Fara út að leika með börnunum
  • Leika
  • Lesa bók með krökkunum
  • Sitja
  • Segja börnunum að skoða bók
  • Snúa við myndum á rugludögum

Lóuhópur

  • Kenna börnum
  • Hjálpa manni
  • Eru í fríi á laugardögum
  • Lesa fyrir mann
  • Ráða reglunum
  • Kenna á spil

Það sem börnin í Lóuhóp myndu gera ef þau væru kennarar:

  • Þá væru engar reglur og má alltaf renna
  • Færum við bara einu sinni út á dag
  • Myndi ég kenna börnunum að lesa
  • Myndi ég kenna börnunum að hamra

© 2016 - 2024 Karellen