news

Vikulokabréf 5. júlí 2019

05. 07. 2019

Öll börnin sem vildu fóru í gönguferðir fyrir hádegi í litlum hópum þessa vikuna. Síðastliðinn föstudag fóru öll börnin á Gulu deild niður að á og í þessari viku hafa þau verið að fara í litlum hópum aftur þangað. Þau hafa tekið með skóflur og fötur og leikið í og við ána sem vakti mikla lukku og hafa þó nokkuð mörg börn komið blaut heim aftur í leikskólann.

Í gönguferðinni á Eggertsflöt í síðustu viku tóku börnin með myndir af blómum úr bók sem þau höfðu lesið daginn áður. Það var mikill spenningur að leita að blómum eins og var í bókinni og líka að finna ný og önnur blóm. Þau tóku myndir af þeim blómum sem þau fundu og skoðuðu aftur blómabókina daginn eftir. Gönguferðin í þessari viku var sú síðasta fyrir sumarlokun og heppnaðist ótrúlega vel. Börnin lögðu spennt af stað og léku á Eggertsflöt. Í þetta skiptið tóku þau með ávexti, plastaðar myndir með bókstöfum og fóru í Sílaleikinn.
Um 14:30 var lagt af stað í Reykholt og endað heima hjá Helgu þar sem Gísli og Sjöfn grilluðu pylsur fyrir alla. Heima hjá Helgu léku börnin á pallinum, á trampólíninu og í kofanum. Allt heppnaðist ótrúlega vel og gaman að sjá gleðina hjá börnunum. Við vorum einstaklega heppin með veður en það datt ekki dropi úr lofti fyrr en klukkan 15:57, annars skein sólin á okkur nánast allan tíman og var mjög hlýtt. Við viljum þakka Helgu og Gísla kærlega fyrir móttökurnar!

Í síðustu viku tókum við sandleirinn úr sulluborðinu og hafa börnin leikið með vatn á morgnana. Þeim finnst það svo gaman og höfum við bætt útí það allskonar froðu, sápu og litlum steinum sem gefa frá sér hljóð þegar þeir snerta vatnið.

Í góða veðrinu höfum við farið út með ýmiskonar leikefni. Í þessari viku settum við duplo út á hjólasvæðið sem vakti mikla lukku. Á þriðjudaginn kom Dagbjört Rós með hvolpinn sinn í heimsókn. Börnin voru spennt og glöð að fá að hitta hann og léku við hann þar til hann fór aftur heim.


Í listakjallara hafa börnin alfarið unnið sínar hugmyndir síðustu vikurnar og verkefnin hafa verið mjög fjölbreytt. Má helst nefna búa til bækur, stimpla, mála og spreyja steina og fleira.

Eftir sumarfrí verða þær breytingar hjá okkur að Dagný fer í fæðingarorlof og kemur ekki aftur til vinnu fyrr en á næsta ári. Í september koma Ingibjörg Kristleifsdóttir, leikskólakennari og Kristjana Karlsdóttir til starfa.

Við viljum eindregið biðja ykkur um að tilkynna frí tímanlega símleiðis eða í gegnum Karellen forritið að morgni fyrir klukkan 9:00. Það er mikilvægt að vita barnafjölda í byrjun dags uppá skipulag, matinn og hópastarfið fyrir þau börn sem mæta svo þau missi ekki af t.d. eins og gönguferðum fyrir hádegi. Sama má segja ef barn er sótt fyrr, er mikilvægt að tilkynna það.

Í næstu viku verður opið á mánudag og þriðjudag. Sumarlokun hefst á miðvikudaginn og mun leikskólinn opna aftur fimmtudaginn 8. ágúst á venjulegum tíma klukkan 7:45.

Við vonum að allir njóti sumarfrísins til hins ýtrasta og við hlökkum til að hitta alla aftur eftir sumarfrí!

Góða helgi og gleðilegt sumar

MEÐ SÓL Í HJARTA

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2020 Karellen