news

Vikulokabréf 3. maí 2019

03. 05. 2019

Kæru foreldrar.

Vorveðrið hefur farið vel í okkur, eykur kraft og útivistaþrá. Það er alltaf nóg að gera í maí en að þessu sinni útskrifast engin börn frá Hnoðrabóli sem hefur ekki gerst áður að okkur minni. Dagatal maímánaðar er komið út og biðjum við ykkur um að fylgjast vel með dagsetningum á viðburðum.

Apríl hefur verið „tættur“ mánuður þar sem mikið var um frí og veikindi.

Gönguferð: börnin á Gulu deild ætla að ganga inn á Eggertsflöt alla miðvikudaga í maí og hafa síðdegishressinguna þar. Foreldrar þessara barna sækja sín börn í lok dags þangað eða í Höskuldargerði. Hlökkum til að fá að njóta þess sem skógurinn hefur upp á að bjóða við Eggertsflöt.

Starfsdagur: Skólinn er lokaður þriðjudaginn 7. maí en þann dag kynnum við okkur samstarf leik- og grunnskóla í Auðarskóla í Búðardal. Skólastjórnandinn, Hlöðver Ingi, er okkur vel kunnugur þar sem hann vann lengi við grunnskólann í Varmalandi sem deildarstjóri og mun hann fræða okkur um þeirra kennslu- og starfshætti sem mun nýtast okkur í þeim breytingum sem við eigum von á með tilkomu nýs húsnæðis að Kleppjárnsreykjum.

Könnun á vegum Skólapúlsins: Gaman er að segja frá því að niðurstöður úr Skólapúlsinum komu vel út miðað við landsmeðaltalið. Við munum fara yfir þau atriði, sem við teljum að við þurfum að bæta okkur í, með ykkur á foreldrafundinum á komandi hausti. Starfsmenn eru afar þakklátir fyrir góð og jákvæð ummæli eins og fram kom í könnuninni. Það veitir okkur styrk og gefa okkur orku til að gera enn betur.

Starfsmannamál: Nú er verið að auglýsa eftir fólki til starfa við skólann í vor og á komandi hausti. Það þarf að manna þrjár stöður þar sem Katrín hættir hjá okkur 1. júní þar sem hún mun stunda búskap með sínum foreldrum að Helgavatni í sumar og hefja nám í haust í búvísundum. Dagný á von á sér í september og síðan aukum við við stöðugildi skólans svo hægt sé að taka inn barn af biðlista. Ykkur að segja hafa þó nokkrir umsækjendur sótt um starf svo við erum vongóð um að ná að manna stöðurnar sem er forsenda fyrir starfi skólans.

Atferlisfræðingur: Borgarbyggð hefur samið við Katrínu Björnsdóttur atferlisfræðing frá Greiningarstöð. Hún starfar sem verktaki og mun þjónusta leik-og grunnskólana. Hún hefur komið einu sinni til okkar og mun koma aftur í júní. Hún veitir einnig þá þjónustu fyrir foreldra og fjölskyldur að koma heim og rýna í og aðstoða við að finna leiðir sem lúta að hegðun og atferli barna. Sú þjónusta er ekki borguð af sveitarfélaginu en fólk er hvatt til að hafa samband ef það hefur áhuga.

Góða helgi.

MEÐ SÓL Í HJARTA

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2020 Karellen