news

Vikulokabréf 31. janúar 2020

31. 01. 2020

Kæru foreldrar

Þegar síðasta vikulokabréf var sett inn á netið þá fór ekki partur af textanum með sem var fyrir neðan myndina. Endilega kíkið á það því að þar eru upplýsingar um sumarlokun o.fl.

Tannverndarvika er alltaf jafn áhugaverð hjá börnunum, tennurnar eru þeim svo hugleiknar og sagan um Karíus og Baktus er eitt besta og skemmtilegasta námsgagnið. Við ræddum mikið um hvað væri gott fyrir tennurnar og gerðum verkefni tengt því í vali, ásamt því að „bursta tennur“ þar sem börnin teiknuðu tönn, fengu hvíta málningu og burstuðu með tannbursta á tönnina. Myndirnar á ganginum gerðu öll börnin í listakjallara, mjög gaman er að skoða og reyna að koma auga á sitt barn útfrá munnsvipnum.

Skólaheimsókn gekk mjög vel, í þetta sinn fórum við ekki í íþróttatíma þar sem húsið var í notkun fyrir annað. Í staðinn fóru við í stöðvavinnu (kapplakubbbar, vinnubók, upplýsingartækni og spila). Við enduðum daginn á Læknistúninu, þar sem var málað og mikið leikið. Börnin brutu klakann sem var yfir læknum og máluðu hann.

Dagur stærðfræðinnar er á morgun 1. febrúar, við komum til með halda honum meira á lofti í næstu viku með því að leika okkur með tölur og hugtök í stærðfræðinni.


Í dag var mjög skemmtileg uppákoma á vinafundi, en þannig er að amma/langamma Helga Guðráðsdóttir hefur verið svo elskuleg að gera við götin á Hnoðrabólsvettlingunum fyrir okkur og komu vettlingar úr viðgerð í hús í morgun. Vinafundurinn var nýttur í það að telja vettlingana og skoða viðgerðirnar á þeim. Börnum fannst þetta mjög skemmtilegt og næsta verkefni barnanna er að útbúa og senda Helgu þakkakort.

Þorrablótið verður næsta miðvikudag, börnin hlakka mikið til.

Barn spyr starfsmann :“verður bara súrt“
Starfsmaður svarar: „Nei, það verða líka flatkökur, rúgbrauð, harðfiskur og sviðasulta ný, ósúr.
Barnið: „ Ó, verður sviðasulta ég elska hana“ og það kom glampi í augu barnsins.

Það er svo gaman að gefa börnum á Hnoðrabóli að borða því þau eru matgæðingar, elska að borða sem er frábært og það segir svo okkur svo margt um þær matarhefðir sem við erum með í sveitinni.

Handþvottur: Hér á Hnoðrabóli höfum við alltaf lagt mikla áherslu á handþvott, eftir salernisferðir, fyrir mat o.sv. fr. Næstu daga munum við rifja upp og æfa handþvott hér sérstaklega því hann er mikilvæg forvörn við smitleiðum. Embætti landlæknis og sóttvarnalæknir legga ríka áherslu á hreinlæti vegna kórónaverunnar en það er búið að gefa út yfirlýsingu frá þeim um ósvissustig vegna hennar. Endilega að taka umræðuna um handþvott heima fyrir og hvetjið börnin til að sýna ykkur réttan handþvott.

Hér fyrir neðan er skjal með myndum af handþvotti, einnig er slóð inn á heimasíðu landlæknis þar er að finna frekari upplýsingar. https://www.landlaeknir.is/

Dagur leikskólans er í næstu viku , fimmtudaginn 6. Febrúar. Þann dag verður opið hús hjá okkur og munum við auglýsa það betur eftir helgi.

MEÐ SÓL Í HJARTA,

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2020 Karellen