news

Vikulokabréf 28.febrúar 2020

28. 02. 2020

28.febrúar 2020

Vetur við stóra kofa

Kæru foreldrar

112 dagurinn: þá fengum við heimsókn frá björgunarsveitinni Ok. Josefina frá Giljum og Bjarki frá Geirshlíð komu til okkar á björgunarsveitabílnum sem var mjög áhugavert og skemmtilegt. Eldri börnin skoðuðu bílinn á stóru dekkjunum. Inni spjölluðu þau við börnin um mikilvægi þess að nota endurskinsmerki og fengu öll börnin endurskinsmerki frá þeim. Við þökkum þeim kærlega fyrir heimsóknina.

Skólahópur: 13.febrúar fóru þau í Logaland í stað þess að fara í grunnskólaheimsókn vegna skíðarferðar. Ferðin gekk einstaklega vel, börnin voru mjög ánægð þegar þau komu til baka og sögðu skemmtilegar sögur frá því sem þau voru að fást við. Þau fóru útí skóg og sáu listaverk, hjálpuðu til að taka til matinn og fengu kakó útí skógi eftir hádegi.

Góðverkavikan: því miður einkenndist hún af veikindum hjá börnunum en þau sem voru í húsi ræddu hvað væri að gera góðverk og hvernig maður gerir góðverk, við lásum líka bækur þar sem góðverk koma við sögu og nýttum daginn til góðverka.

Skólaheimsókn þann 20.febrúar var skipulögð útfrá samstarfsáætlun Leik- og grunnskóla. Börnin fóru í upplýsingatækni og ratleik á skólalóðinni.

Bolludagur: börnin höfðu útbúið bolluvendi í listakjallara vikuna áður sem voru síðan kláraðir á bolludeginum. Við fengum bollur í öll mál og vakti það mikla lukku, sérstaklega rjómabollurnar í síðdegishressingunni.

Sprengidagur var hefðbundinn, saltkjöt og baunir, túkall í hádeginu. Gaman að segja frá því hvað matarlystin var mikil á saltkjötinu og voru börnin mjög dugleg að borða súpuna.

Öskudagur: þeir sem vildu fengu andlistmálningu um morguninn og eftir ávaxtastund hófst öskudagskemmtunin. Við slóum köttinn úr tunnunni, datt niður snakk og við dönsuðum við lög sem börnin höfðu valið. Í hádeginu var pizza og eftir hvíld fóru börnin sem voru vakandi í gönguferð og sungu fyrir Steinu og fengu góðgæti að launum.

LOKAÐ- Það er starfsdagur n.k mánudag 2. mars hjá starfsfólki. Þann dag munum við nýta í vinnu til að skipuleggja starfið fram að vori, fara yfir skólastefnu Borgarbyggðar og ræða komandi flutning og starf skólans á nýjum stað ásamt mörgu öðru. Minni á að síðasti starfsdagur á þessu skólaári er föstudaginn 8. maí og þá er lokað.

Starfsmannamál:

  • Elsa eykur við sig vinnu frá og með 9. mars og verður hún í ca. 85% starfi inn á Rauðu deild.
  • Gígja fer í 100% starf í maí þegar hún hefur lokið að taka síðasta prófið í skólanum.
  • Þuríður mun hætta hjá okkur í byrjun maí þar sem hún mun hverfa til sveitastarfa heima hjá sér á suðurlandi.

Eins og greint var frá í síðasta vikulokabréfi þá höfðum við von um að fá umsækjanda til starfa en svo er ekki, því verður auglýst aftur eftir starfsmanni fram að sumarlokun. Síðan veður auglýst eftir kennurum í maí til að starfa við skólann á komandi haust.

Verkfall hjá starfsfólki: Stéttarfélagið Kjölur hefur boðað til verkfalls dagana 9.mars og 10.mars og eru þetta fyrstu dagsetningar af verkfallsboðun. Það eru 4 starfsmenn hér í Kili og ef af verður er ljóst að hér verður mjög skert þjónusta. Sviðstjóri fjölskyldusviðs og leikskólastjórar Borgarbyggðar eiga eftir að funda og ræða stöðuna þegar nær líður að þessu boðaða verkfalli. Þetta hangir saman við það hvernig Eflingu gengur að semja við samningarborðið.

Veikindin hafa heldur betur ekki yfirgefið okkur, mjög slæm flensa hefur lagst á barnahópinn, starfsmenn hafa sloppið hingað til (7,9,13 J). Eins og allir hafa heyrt í fréttum þá fylgjumst við með gangi Covid-19 kórónuveirunnar, höldum hreinlæti á lofti með góðum handþvotti og almennri skynsemi.

© 2016 - 2021 Karellen