news

Vikulokabréf 27. september 2019

27. 09. 2019

Kæru foreldrar.

Veðrið hefur leikið við okkur með hlýindum og höfum við notið þess vel, það er svo dýrmætt að fá að hlaupa úti léttklæddur.

Okkur hefur gengið vel að keyra nýja skipulagið okkar og má segja að börnin hafa tekið því fagnandi. Húsnæði okkar býður ekki upp á miklar breytingar en það litla sem við gerum er til hagsbóta fyrir starfið, börnin og starfmenn.

Lopapeysudagur: Börnin komu ljómandi inn um morguninn í sinni lopapeysu. Í samverustund ræddum við um skemmtilegar útfærslur á hinum ýmsu peysum.

Bíó: Að þessu sinni horfðum við á Latabæ. Bíó var inn á Gulu deild og fylltist herbergið af prúðum bíógestum sem komu af báðum deildum. Það er alltaf mikil tilhlökkun hér í húsi þegar þessi viðburður er og skapast góð stemning við að horfa saman og njóta.

Nöfn á hópa: Börnin hafa valið nöfn á hópana sína eftir sæmilega lýðræðislegum leiðum. Þemað var náttúran og niðurstaðan er að á Gulu deild eru Fossahópur, Steinahópur, Stjörnuhópur og Sólarhópur. Á Rauðu deild eru Skýjahópur og Blómahópur.

Fyrsta skólaheimsókn elstu barna í grunnskóla Borgarfjarðar að Kleppjárnsreykjum:
Dagurinn byrjaði vel, börnin mættu hress og kát og full tilhlökkunar. Inga og Helga voru búnar að hugsa vel fyrir öllu skipulagi og reiðubúnar í verkefnið eins og börnin. Skóladagurinn gekk rosalega vel, við byrjuðum á því að fara í frímínútur og íþróttir með 1. bekk sem tók vel á móti okkur. Við fórum líka í upplýsingatækni þar sem fingrafimi var æfð og fórum í skoðunarferð um skólann. Sáum meðal annars prúða unglinga sem okkar fólki þótti í frásögur færandi. Hádegismaturinn gekk ótrúlega vel. Soðinn fiskur með góðu meðlæti var í boði. Börnin stóðu sig vel í sjálfshjálp með dyggri aðstoð og gengu sjálf frá diskunum sínum. Þegar við höfðum kynnst 1. og 2. bekk var farið í útikennslu fyrir ofan Læknishúsið. Það var mikið ævintýri og leyfði veðrið okkur að slaka á taumnum og unnið var af áhuga við frumefnin vatn og jörð. Leitað var að skordýrum og spilað bingó upp á að finna ýmsar tegundir. Þau tóku það alvarlega og stóðu sig frábærlega í því. Þið kæru foreldrar fenguð að kenna á því að flestir voru blautir upp fyrir haus en við vitum að þið fyrirgefið það í ljósi þess að aðalreglan í fyrstu heimsókninni var að hafa gaman. Skólabíllinn skilaði okkur heilum heim í kaffitímann.

Björgunarsveitin Heiðar:
Í dag komu tveir björgunarsveitarmenn í heimsókn til okkar og fræddu börnin um það sem ber að varst heima fyrir eins og t.d sápur í brúsum eiga að vera inn í læstum skáp og það má ekki drekka úr þessum brúsum. Þeir gáfu öllum börnum endurskinsmerki að gjöf og skildu eftir gátlista fyrir ykkur foreldrana til að fara yfir öryggi á heimilinu. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna og ánægjulegt að björgunarsveitir landsins sinni þessum forvarnverkefnum. Takk.

Fréttir af Gulu deild: Börnin fara í hópastarf kl. 9 og skiptast þau á að fara í sínum hópum í, myndlist, einingakubba, numicon /töluleikur, hreyfingu, sulla og eða ljósakubb. Börnin fóru í gönguferð fyrir hádegi á miðvikudag út í Reykholtsskóg að tína laufblöð og skemmtu allir sér mjög vel.

Fréttir af Rauðu deild: Okkur hefur gengið vel að aðlagast nýju skipulaginu. Börnin fóru í fyrsta skipti niður í listakjallara til Helgu, síðan fóru þau í Hreyfingu til Maríu, einingakubbastund til Ingu, numicon/töluleikur hjá Kristjönu og sulla og í ljósakubb með Örnu. Gígja fylgir börnunum í þessar hópastarfstundir ásamt því er hún með málörvunarstundir ásamt Ingu. Samverustundir byggjast upp á Lubba/Lubbi finnur málbeinið og vináttuverkefninu Blæ.
Við erum alltaf að vinna með vináttuna sem byggir á félagsfærninni, orðræðan er; við erum vinir, passa sínar hendur, skiptast á og muna að spyrja „má ég fá“.

Vinafundur: Við erum að gera tilraun með að hafa sameiginlegan vinafund á föstudögum þar sem allir koma saman og eiga notalega stýrða stund með uppákomum. Í dag sagði Sjöfn leikskólastjóri lifandi og skemmtilega sögu og við sungum einnig nokkur lög.

Starfið í október: Til viðbótar því sem kemur fram á dagatalinu okkar fyrir október er það að Bjarni slökkviliðstjóri kemur til okkar þriðjudaginn 15.október kl. 9:30. Hann fræðir elstu börnin/skólahóp um Loga og Glóð. Börnin horfa á mynd með þeim og síðan gera þau verkefni um eldvarnir. Ekki ljóst á þessari stundu hvort slökkviliðsbíllinn kemur að þessu sinni. Október er mánuðurinn sem sýnir okkur best hvernig haustið leggst fyrir gróður og munum við taka fræðslu um það.

  • Foreldrafundur verður haldinn þriðjudaginn 15. október. Kl. 20:15 Fundurinn er sameiginlegur fundur okkar og foreldrafélagsins en í stjórn félagsins sitja Þóra Geirlaug formaður, Vigdís gjaldkeri og Helga ritari. Dagskrárliðir fundarins eru þessi , leik- og deildarstjóri kynna starf skólans og síðan er aðalfundur
  • Nokkrar tilkynningar frá leikskólastjóra:
  • Leikskólinn opnar kl. 7.45 og lokar kl. 16.15. Ég vil biðja foreldra að virða þann dvalarsamning sem gerður hefur verið. Það er ekki leyfilegt að koma með barn of snemma eða sækja of seint. Starfsfólki er raðahús eftir mætingu barnanna.
  • Allar fjarvistir þarf að tilkynna til leikskólans í gegnu Karellen eða símleiðis.
  • Hlið inn í leikskólagarðinn á að vera LOKAÐ og börnin mega ekki opna né loka því.
  • Vinsamlegast munið eftir að drepa á bifreiðum fyrir utan leikskólann, ekki skilja hann eftir í lausagangi þar sem mengunin leggst yfir leiksvæði barnanna.
  • Að lokum
  • Daglegar upplýsingar um barnið heima og á leikskólanum eru mjög nauðsynlegar. Látið vita ef breytingar verða heima. Eins mun starfsfólkið miðla því til foreldra sem gerist á leikskólanum. Gagnkvæmur trúnaður milli foreldra og starfsfólks er m.a. forsenda þess að barninu líði vel í leikskólanum.

Góða helgi,

MEÐ SÓL Í HJARTA,

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2021 Karellen