Karellen
news

Vikulokabréf 24. janúar 2020

24. 01. 2020

Kæru foreldrar

Það má nú segja að veðrið sé farið að stjórna fullmikið skólastarfinu hjá okkur og af þeim sökum var leikskólanum lokað í tvo daga, 8. og 9. janúar. Börnin voru að skila sér inn fram í miðjan mánuðinn en skipulag er að komast í fastar skorður. Við kvöddum jólin á þrettándanum á eftirminnilegum hætti með jólaballi og flugeldum. Þetta var í raun síðasta jólaballið á Grímsstöðum.

Við höfum þurft að breyta skipulaginu sem var fyrir áramótin þar sem hér er breytt staða í starfsmannahaldinu. Í desember var auglýst eftir leikskólakennara til starfa og það bárust 3 umsóknir en því miður fór það þannig að staða þeirra breyttist stuttu eftir starfsviðtal. Okkur vantar því enn starfsfólk til starfa, við munum auglýsa aftur og endilega látið orðið berast út.

Eins og fram kemur að ofan höfum við þurft að breyta skipulaginu. Í grunninn er það að hluta til eins nema við höfum sameinað hópa og bætt við vali inná gulu deild á miðvikudögum og föstudögum, inná rauðu deild er val á föstudögum með börnunum á gulu deild. Auðvitað eru þessar breytingar meira tilkomnar vegna starfsmannahalds en við erum alltaf að rýna í skipulagið út frá barnahópnum og húsnæðinu. Við viljum gera starfið eins fjölbreytt og lifandi og hægt er.

Bókavikan okkar var lengd um eina viku að þessu sinni þar sem óveðrið tók völdin. Bókavikan er alltaf jafn skemmtileg fyrir alla, börn og starfsfólk líka. Lestur bóka er ein af mikilvægustu leiðunum til að styrkja málþroskann, því er bókagjöf gulls ígildi.

Spiladagurinn gekk vel og gaman að sjá hvað börnin voru áhugasöm, hér sveif spilagleði fyrir öllum allan daginn. Spil er ein af mörgum leiðum til að örva málþroska, þjálfar ákveðna færni í að hlusta, skilja og einbeitingu.

Föstudagurinn dimmi er mjög dimmur og þá notum við sem minnst af rafmagnsljósum. Börnin komu með vasaljós og var farið í skemmtilega vasaljósaleiki þar vasaljósin voru notuð. Einnig voru vasaljósin notuð við verkefni og leik til dæmis að perla og fleira.

5. bekkur ætlaði að koma til okkar í vikunni en heimsókn þeirra færðist fram í næstu viku, það verður gaman að taka á móti þeim á þriðjudaginn 28.janúar.

Bangsa- og náttfatadagur er eitthvað sem vekur alltaf lukku. Allir svo ánægðir með bangsann sinn og glaðir að sýna hinum. Börnin teiknuðu bangsamyndir og í vali gerðu börnin bangsamyndir á maskínupappír sem hangir inná gulu deild. Við sungum öll þau bangsalög sem við fundum í samverustund.

Í gær fór skólahópur í sína fyrstu grunnskólaheimsókn á nýju ári. Veðrið var nú ekki gott þegar lagt var af stað en allt gekk mjög vel. Dagurinn fór að mestu samkvæmt plani; við byrjuðum á íþróttum, fórum svo inn að vinna í verkefnabókum og Fossahópur fór í upplýsingatækni að vinna í fingrafimi. Eftir frímínútur er okkar gæðastund sem hópur og fengum við kanínuknús og lásum skemmtilega bók, Stelpan sem sigldi kafbát niður í kjallara. Í hádegsmat fengum við fisk í ofni með margskonar meðlæti sem börnin kunna svo sannarlega að meta. Eftir hádegi var tekin ákvörðun um að sleppa útikennslu og vera inni vegna veðurs, við fengum skemmtilega heimsókn frá Þóru Geirlaugu þar sem hún kom með dauða tófu til sýnis og fengu börnin heilmikla fræðslu tengda því. Einnig fengum við að horfa á bíómynd um strumpana.

Í dag er Bóndadagur sem markar upphaf Þorrans. Við höfum verið að tengja lifnaðarhætti fyrr á öldum við Þorrann. Við höfum skoðað myndir af torfbæjum og úr gömlum húsum og í dag lékum við með bein, legg og skeljar. Við höldum áfram með þetta verkefni næstu vikur.

Minnum á að í næstu viku er tannverndarvika sem Landlæknisembættið stendur fyrir á landsvísu.

Sumarlokun. Tilkynning hangir á upplýsingatöflu um sumarlokun Hnoðrabóls næstu fimm sumur. Sumarið 2020 verður lokað frá og með 8. júlí til og með 5. ágúst og opnum við því aftur fimmtudaginn 6. ágúst. Þessi sumarlokun er sett fram með fyrirvara um flutning Hnoðrabóls. Því verður þetta metið þegar líður að vori útfrá stöðu byggingarmála.

Njótið þorrans með söng og gleði.

MEÐ SÓL Í HJARTA,

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2024 Karellen