news

Vikulokabréf 21. júní 2019

21. 06. 2019

Sumarfrí og sumarlokun.
Senn líður að sumarlokun en leikskólinn verður lokaður frá og með miðvikudeginum 10. júlí til og með miðvikudeginum 7. ágúst. Við opnum því aftur á venjulegum tíma fimmtudaginn 8. ágúst klukkan 7:45.

17. júní
Þá var lokað en sum okkar hittust á hátíðarhöldum í Logalandi og gaman var að allir skemmtu sér vel. Gaman að segja frá því að stór hluti starfsamanna hér í húsi var í 17. júní nefndinni.

Göngutúraplan fyrir hádegi klukkan 10
Á þriðjudaginn byrjuðum við með nýtt göngutúraplan sem er fyrir hádegi flesta daga. Öll börnin á Rauðu deild fara í gönguferð tvisvar sinnum í viku og öll börnin á Gulu deild fara einu sinni í viku í gönguferð fyrir hádegi, ásamt gönguferð á Eggertsflöt og gönguferð eftir hádegi á föstudögum. Í þessum gönguferðum fyrir hádegi fara börnin í minni hópum út fyrir garðinn og gera mögulega einhver verkefni, þessa vikuna hefur Gula deild farið og límt blóm á blöð og Rauða deild kannað umhverfið og tekist á við margskonar landslag.

Eggertsflöt
Á miðvikudaginn fóru allir á Gulu deild á Eggertsflöt. Ætli þetta hafi ekki verið kaldasti miðvikudagurinn í vor/sumar og fyrsta rigningin í margar vikur. Fengu börnin heitt kakó í síðdegishressingu sem hlýjaði þeim og vakti svo sannarlega mikla lukku. Í þetta sinn söfnuðu börnin sprekum, stráum og fleiri efnivið á leiðinni á Eggertsflöt og bjuggu svo til eitt stórt hreiður úr öllu því sem þau fundu. Börnunum fannst hreiðurgerðin mjög áhugaverð og spruttu upp margir skemmtilegir fuglaleikir í kjölfarið.

Leiksýning
Á fimmtudaginn kom leikhópurinn Flækja í heimsókn til okkar en hann samanstendur af leikkonunum Júlíönu Kristínu og Sigríði Ástu. Þær sýndu leiksýninguna „Það og Hvað“ þar sem samnefndar persónur fá börnin til að hjálpa sér við að leita svara við spurningum um vináttu, ástina, lífið og tilveruna. Heppnaðist sýningin mjög vel og sýndu börnin mikla aðdáun og áhuga á sögunni og sönglögunum.
Sama dag var sápukúludagur sem er alltaf jafn skemmtilegur. Veðrið var milt og gaman að sjá sápukúlurnar svífa á brott í golunni.

Muna að tilkynna
Frí og barn sótt fyrr
: Nú er kominn sá tími að börn eru farin í meira frí en venjulega og viljum við eindregið biðja ykkur um að tilkynna frí tímanlega símleiðis eða í gegnum Karellen forritið að morgni fyrir klukkan 9:00. Það er mikilvægt að vita barnafjölda í byrjun dags uppá skipulag, matinn og hópastarfið fyrir þau börn sem mæta svo þau missi ekki af t.d. eins og gönguferðum fyrir hádegi. Sama má segja ef barn er sótt fyrr, er mikilvægt að tilkynna það.
Breyting á svefni: á þessum tíma er meira um að breytingar verði á svefni hjá börnum, þau fara seinna að sofa, mikilvægt er að þau nái góðum nætursvefni til að takast á við daginn hér. Óskum við eftir að fá góðar upplýsingar ef einhverjar breytingar eru á svefni svo við getum lesið barnið betur í deginum.

Góða helgi.

MEÐ SÓL Í HJARTA

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2020 Karellen