Karellen
news

Vikulokabréf 20. september 2019

20. 09. 2019

Kæru foreldrar.

Tíminn flýgur að vanda og enn ein vikan að taka enda.

Starfsfólk, börn og foreldrar á Hnoðrabóli hafa fundið hversu dýrmætt það er að tilheyra samfélagi þar sem staðið er saman og hlýja og samhugur ríkja.

Nýju andlitin sem þið sjáið í starfsmannahópnum eru Arna og Ingibjörg. Kristjana kom úr fæðingarorlofi og allt er fallið í ljúfa löð.

Starfsdagur var síðasta föstudag. Þá fórum við yfir starfið framundan. Ytri ramminn var festur með skipulagi og innra starfið rætt og samræmt. Næsti starfsdagur er 30.október og verður þá námskeið í leiðtogafræðum sótt með öðrum skólum Borgarbyggðar í Reykholti.

Eins og börnin hafa sjálfsagt sagt ykkur þá er búið að róta upp sætaskipan í matartímum. Elstu börnin eru í græna herberginu með Ingu og Helgu. Miðhóparnir í gula herbergi og yngstu áfram á Rauðu. Tvö börn bættust í miðhópinn frá Rauðu deild.

Yngsti meðlimur Hnoðrabóls hefur lokið aðlögun og er orðinn öruggur á Rauðu deild.

Börnin eru orðin 23 á aldrinum 1- 5 ára. 17 tilheyra Gulu deildinni og 6 Rauðu deild.

Hópastarf er hafið og dagskipulagið varðandi útiveru, samverustundir, hvíld, matartíma og leik er klárt. Börnin eru í hugmyndavinnu með nöfn á nýju hópunum og það vantar ekki hugmyndirnar. Ákveðið er að tengja það náttúrunni. Tugir tillagna frá þeim bíða úrslita sem koma í ljós í næstu viku.

Foreldrar elstu barna komu á fund vegna fyrirhugaðrar samvinnu á Kleppjárnsreykjum. Hópurinn fer á fimmtudögum og tekur þátt í stundarskrá 1. og 2. bekkjar inni og úti. Helga og Inga munu fylgja þeim í það ævintýri og lögð áhersla á upplýsingaflæði til viðkomandi foreldra.

Við létum ekki okkar eftir liggja í smalamennsku og tilheyrandi vosbúð. Allir hópar ösluðu læki upp hæðina að hesthúsinu þar sem við fundum hesta og skjól. Svo var sest í helgan stein og leikið í holtinu áður en baslast var heim á ný. Einnig fengum við dýrindis smalasúpu sem Ranka galdraði fram.

Það er mikið búið að lesa og skoða bækur í vikunni. Við þökkum ykkur fyrir góða þátttöku og börnin hafa notið þess að koma með sínar bækur og deila þeim með lestri og frásögnum.

Við fengum nýjan efnivið á útisvæðið sem hefur verið mjög vinsæll. Holukubbar sem breytast í hvíldarheimili, olíutanka og margt fleira.

Nú er svo sannarlega farið að hausta og þið vitið allt um nauðsyn þess að vera með góð hlífðarföt og vel til skiptanna.

Mikilvægt að virða dvalatíma og ekki orð um það meir.

Húsnæði Hnoðrabóls er eins og það er. Allt kapp er lagt á að vel fari um börnin og er það ein leið að fara með elstu börnin úr húsi allavega á fimmtudögum og oftar ef samvinnuverkefnið við grunnskólann gengur vel.

Við minnum á Karellen appið sem er notað hér í húsi. Starfsfólkið er ötult við að taka myndir og senda inná Karellen þar sem foreldrar geta nálgast þær.

Góða helgi,

MEÐ SÓL Í HJARTA,

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2024 Karellen