news

Vikulokabréf 20. desember 2019

20. 12. 2019

Kæru foreldrar

Skólastarfið í desember hefur einkennst af jólaundirbúningi sem er alltaf jafn skemmtilegt.

Starfsmenn Hnoðrabóls sóttu fyrirlesturinn „ég er unik“ sem er um einhverfu þann 5. desember síðastliðinn í Hjálmakletti. Þar fór Aðalheiður Sigurðardóttir með okkur í ferðalag um heim einhverfunnar sem var mjög upplýsandi og fræðandi

Rauður dagur: Þann dag mættu margir í rauðum fötum og með jólasveinahúfu. Þessir uppbrotsdagar eru alltaf jafn vinsælir hjá börnunum.

Piparkökubakstur: Dagurinn gekk mjög vel eins og alltaf, hér fylltist húsið af foreldum sem nutu samverunnar þar sem allir tóku þátt í því að fletja út piparkökudeig og voru bakaðar mörg hundruð piparkökur. Að bakstri loknum var gengið í kringum jólatréð, piparkökur borðaðar ásamt öðru góðgæti. Til gamans má geta þess að margra áratuga hefð er fyrr þessari samveru hér á Hnoðrabóli.

Leikskólinnn var lokaður 10. og 11. desember vegna óveðurs og því var jólamaturinn færður til um tvo daga. Hann heppnaðist vel og allir hæstánægðir með hangikjötið og sérstaklega með eftirréttinn sem var ís.

Kirkjuferð var farin 12. desember og komu foreldrar hvert með sínu barni. Séra Geir tók á móti hópnum og gaman að segja frá því að nánast allir sáu fært að mæta. Börnin gengu í röð inn kirkjugólfið og sungu Bráðum koma blessuð jólin. Við áttum notalega stund saman þar sem séra Geir sagði sögur. Í lokin fengu börnin sem vildu hringja kirkjuklukkunum og svo fengu allir sætan mola við brottför.

Skólaheimsóknir: síðasta skólaheimsóknin fyrir jól var 12. desember. Gaman er að segja frá því að Unnar smíðakennari sýndi okkur smíðastofuna og allir fengu að smíða smá, negla nagla og bora. Næsta skólaheimsókn verður seint í janúar, þann 23. janúar þar sem foreldraviðtöl fara fram í grunnskólanum 16. janúar. Kennarar beggja skóla hafa fundað og metið heimsóknirnar og frábært hversu vel hefur gengið almenn ánægja ríkir.

Jólagjöf: Vel hefur gengið að gera jólagjöfina og gaman að sjá hvað þau nutu þess og voru áhugasöm að gera gjöf handa ykkur. Gjafirnar fóru heim í lok vikunnar.

Jólaball: hið árlega jólaball sem foreldrafélagið og skólinn stendur fyrir verður haldið þann 6. janúar á þréttándanum eins og verið hefur síðastliðna áratugi.

Dagarnir milli jóla og nýárs: Undanfarin ár hefur mæting á milli jóla og nýárs verið mjög dræm. Þess vegna hefur skólanum oft verið lokað og er það einnigstaðan þessi jólin.

Bygging Hnoðrabóls að Kleppjárnsreykjum: Framkvæmdir ganga vel, búið er að loka húsinu, það er verið að leggja síðustu hönd á að klára að leggja járn á þakið. Verkið sjálft er nánast á ætlun og gefur það okkur von um að hægt sé að opna Hnoðraból á tilsettum tíma í ágúst á næsta ári. Sveitarstjórn er búin að samþykkja 40 milljón krónu fjárveitingu í lóðina á næsta ári og á sú upphæð að duga til að fullklára hana sem er mjög ánægjulegt. Einnig er búið að samþykkja að setja 50 milljónir í grunnskólalóðina en það er verið að vinna við að endurskipuleggja grunnskólann.

Starfsmannamál:

Tíminn líður hratt og nú er komið að því að María og Arna kveðji okkur að þessu sinni eins og áður hefur verið greint frá. Þær hætta báðar hjá okkur um áramótin. Ingibjörg Kristleifsdóttir hefur sagt sínu starfi upp og hættir hjá okkur líka um áramótin vegna veikinda. Við þökkum þeim kærlega fyrir gott samstarf og skemmtilega samveru en um leið óskum við þeim velfarnaðar um ókomna tíð.

Auglýst var eftir leikskólakennara til starfa við skólann í desember, það er verið að vinna úr þeim umsóknum sem bárust þessa dagana. Ánægjulegt er að segja frá því að Elsa kemur aftur til starfa 6. janúar í 40% stöðu.

Í gær kom nýji sveitarstjórinn okkar í heimsókn Lilja Börg Ágústdóttir sem er okkur vel kunnug ásamt Mariu Neves verkefnastjóri atvinnu -, markaðs og menningarmála Borgarbyggðar.

Starfsdagur er 3. janúar og þá er skólinn LOKAÐUR. Starfsmenn hafa unnið þennan dag af sér.


Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.


MEÐ SÓL Í HJARTA,

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2020 Karellen