Karellen
news

Vikulokabréf 15.febrúar 2019

15. 02. 2019

Kæru foreldrar.

Vikan hefur einkennst af veikindum hjá börnum og starfsfólki. Í gær settum við út viðvörun á facbook síðu foreldrafélagsins vegna mikillar undirmönnunar. Dagurinn gekk vel þar sem kölluð var út afleysing, nokkur börn voru veik og foreldrar brugðust við með því að sækja og/eða hafa börn sín heima. Vonum að allir nái bata sem fyrst.

  • 112 dagurinn: Félagar úr björgunarsveitinni Oki, Bjarki í Geirshlíð og Josefína Giljum (móðir Bubba), komu til okkar og sögðu okkur aðeins frá starfsemi björgunarsveitarinnar sem vakti mikla hrifningu hjá börnunum. Við fengum að skoða talstöðvar og sjá hvernig þær virka. Að gjöf færðu þau börnum endurskinsmerki með 112 símanúmerinu og slökkviliðshjálm sem er yddari. Við þökkum þeim kærlega fyrir mjög skemmtilega og gefandi heimsókn.

  • Þorrablót: Löng hefð er fyrir því að borða þorramat á Hnoðrabóli á Þorranum. Börnin voru mjög áhugsöm fyrir blótinu, ræddu heilmikið hvort hausinn yrði ekki á lambinu, sem sagt hvort það yrði ekki öruggleg sviðakjammi. Blótið gekk vel, börnin voru dugleg að smakka inn á Gulu en börnin inn á Rauðu borðuðu bara það sem þau þekkja. Það er svo mikilvægt að halda þjóðarhefðunum að börnum og fræða þau um það sem gert var í gamladaga.

  • Foreldraviðtöl á Rauðu deild fóru fram á miðvikudaginn þar sem Elsa mun yfirgefa okkur þann 1. mars og fara í fæðingarorlof. Viðtölin gengu vel og viljum við þakka foreldrum fyrir góð samtöl og gott samstarf sem er lykill að velferð barnsins í leikskólanum. Foreldraviðtöl á Gulu deild verða 25-28. febrúar, boð í þau munu berast í byrjun næstu viku en ráðgert var að senda boðið út í dag en vegna veikinda Dagnýjar frestast það fram yfir helgi.

  • Skóladagur í Borgarbyggð: Laugardaginn 30. mars verður haldinn sameiginlegur Skóladagur allra skóla í Borgarbyggð í Hjálmakletti milli kl. 13-15. Allir skólarnir í Borgarbyggð, leik- grunn- framhalds- og háskólarnir taka þátt þar sem markmiðið er að stimpla inn þýðingu skólanna í samfélaginu, kynna skólastarfið og skapa jákvæðni í garð skólanna. Allir skólarnir hafi eitthvað fram að færa og verður dagskráin mjög fjölbreytt blanda af skemmtun, fróðleik, boðskap, umræðum og fleira. Framlög verða bæði frá nemendum/börnum og starfsfólki. Að sjálfsögðu munum við taka þátt og er verkefnið okkar BÍÓ.
    • Við (börn og starfsfólk) ætlum að sýna 3 stuttmyndir sem börnin unnu með kennurum haustið 2017 og vor og haust 2018. Dýrin í Hnoðraskógi, Vaki tröllastrákur og myndband sem var unnið fyrir Dag íslenskrar tungu.
    • Sýningartíminn á þeim öllum er ca. 30 mín., tvær sýningar á klukkutíma.
    • Börnum á Gulu deild og starfsfólki er skipt upp í sýningahópa yfir Skóladaginn. Þannig að sem flestir taki þátt og hafi hlutverk. Fljótlega munum við greina foreldrum frá skipulagi dagsins og óskum eftir að þau skrái barn sitt á sýningartíma.
    • Börnin búa til „bíómiða“ sem er dagskrá og upplýsingar um verkefnið.
    • Foreldrar hafa val um hvenær dagsins þau geta komið með sitt barn. Við vonumst til að þetta mælist vel fyrir hjá foreldrum en starfsmenn eru mjög jákvæðir.
    • Verkefnið verður unnið þannig með börnunum að þau taki umræðu um allt sem tengist bíó, hvernig er bíó o.sv.fr. það verður spennandi sjá hvernig sú vinna þróast með börnunum og hvaða afurð kemur út úr þeirri vinnu.
    • Við sjáum fyrir okkur að vera með eina kennslustofu í Hjálmakletti, þar sem skjávarpi varpar myndunum upp á tjald og börnin rétta gestum bíómiða.

Viljum við benda á að þegar skrifað var undir dvalarsamning veita foreldrar samþykki fyrir því að myndband sé tekið af barni og ljósmyndir birtar á heimsíðu/samfélagsmiðlum leikskólans eða útgefnu ritum.Ef eitthvað er óljóst varðandi stuttmyndirnar sem snýr að ykkar barni/börnum endilega hafið samband við deildar-og eða leikskólastjóra.

  • Góðverkavika 18-22. febrúar: Við munum einbeita okkur að vináttuverkefninu okkar með Blæ í næstu viku. Tala um mikilvægi þess að vera góð hvort við annað og hvað það sé gefandi að vinna góðverk en við þurfum líka að geta notið þeirra og tekið við þeim frá öðrum með þakklæti. Við munum hvetja börnin til að gera góðverk bæði í leikskólanum og heima.

Hér eru nokkrar hugmyndir:

Bjóðast til að taka til og/eða fara með ruslið.
Bjóða vini heim.
Gefa smáfuglunum.
Hjálpa pabba og mömmu.
Tala við ömmu og afa.
Teikna mynd og gefa pabba, mömmu,afa og ömmu.
Fara með diskinn sinn í vaskinn eftir matinn.
Muna að þakka fyrir matinn.
Segja eitthvað fallegt við einhvern heima og í leikskólanum.

Hugum að góðverkunum með bros á vör með þeim orðum óskum við ykkur góðrar helgar.

Batakveðjur á veika fólkið, stórt og smátt.

MEÐ SÓL Í HJARTA, starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2024 Karellen