news

Vikulokabréf 12. apríl 2019

12. 04. 2019

Vináttuverkefni Barnaheilla. Við á Hnoðrabóli höfum verið að vinna með námsefni og forvarnarverkefni á vegum Barnaheilla sem heitir Vinátta. Hingað til hefur námsefnið verið fyrir börn á aldrinum 3-6 ára en nú er búið að þýða og þróa námsefni fyrir börn á aldrinum 0-3 ára. Í síðustu viku fóru Dagný og Gígja á námskeið þar sem námsefnið var kynnt og fengu þær tösku og Blæ bangsa í hendurnar. Síðastliðinn þriðjudag hófst verkefnið inná deild þar sem öll börnin á Rauðu deild fengu sinn Blæ bangsa og fannst þeim það mjög skemmtilegt og var mikið gleði. Núna eiga öll börnin á Hnoðrabóli sinn Blæ bangsa og fara í Vináttu-stundir með honum.

Inná Spotify má finna tónlist undir heitinu Vinátta-Gott er að eiga vin sem er mjög skemmtilegt að hlusta á.

Börnin á Rauðu deild eru ekki lengur í hvíld inní Rauða, heldur inní Bláa. Þessar breytingar áttu sér stað í síðustu viku og hefur það gengið mjög vel. Þá er hægt að nýta Rauðu deildina og Listakjallarann fyrir önnur börn á þeim tíma sem hvíldin er.
Þetta er ein af þeim lausnum sem við fundum til að geta nýtt öll rýmin eins vel og hægt er út frá barnahópnum.

Veðrið hefur verið einstaklega gott alla vikuna og höfum við nýtt það vel og verið mikið úti. Mikilvægt er að huga að viðeigandi fatnaði fyrir börnin, t.d. léttari húfur og vettlinga og að hafa stígvél og regnföt í hólfum því það er aldrei að vita hvað okkur dettur í hug að gera, eins og að sulla með vatn í sandkassanum, fara í gönguferðir þar sem er blautt og drullugt eða ennþá snjór og fleira. Í vikunni fóru öll börnin í gönguferðir sem gengu mjög vel.
Við minnum foreldra á að láta starfsmenn vita ef börnin verða sótt snemma þar sem við eigum það til að fara í lengri gönguferðir eftir hádegi.

Á miðvikudaginn var gulur dagur og páskamatur. Börn og starfsfólk mættu í gulum fötum og Embla eldaði dýrindis lambalæri sem allir voru duglegir að borða. Páskaundirbúningurinn hefur farið fram í alls kyns föndri með páskalegum efnivið t.d. eggjaskurn, gulum, rauðum og appelsínugulum lit ásamt þeim brúna en börnin segja að hann sé páskalitur því súkkúlaði er brúnt á litinn.

Ræktunin hefur farið vel af stað en það hefur mikið sprottið upp hjá okkur af allskyns plöntum. Börnin máluðu lítil box og völdu sjálf hverju þau vildu sá í boxið. Það fer heim í dag og gaman verður að heyra hvort ræktunin takist eða ekki.

Josefina stefnir á að koma til okkar í næstu viku með fræðslu til barnanna um pabba sinn sem er trillukarl á Spáni. Á foreldrafundi í haust voru foreldrar hvattir til að skrá sig á blað og koma með fræðslu til barnanna í vetur. Það komu nokkrir foreldrar fyrir jól og nú ætlum við að halda áfram með þá sem eftir eru.

Í næstu viku verður lokað á rauðu dögunum. Þá er opið á mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Síðan vikuna eftir það er opið á þriðjudeginum og miðvikudeginum (23. og 24. apríl), lokað á fimmtudeginum (Sumardagurinn fyrsti 25.apríl) og svo opið á föstudeginum (26.apríl).

Í næstu viku kemur ekki vikulokabréf því viljum við nota tækifærið núna og óska öllum gleðlegra páska og vonum að þið hafið það notalegt í páskafríinu (18.-22.apríl).

Góða helgi.

MEÐ SÓL Í HJARTA

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2020 Karellen