Karellen
news

Seinkað vikulokabréf 14. maí 2019

14. 05. 2019

Kæru foreldrar

Síðustu dagar hafa verið með skemmtilegum uppbrotum, gönguferð á Eggertsflöt og töframaðurinn Einar Mikael kom með sýningu. Hann fangaði börnin með skemmtilegum töfrabrögðum og góðri nærveru, eflaust hafa börnin kúkað peningum síðan þá.

Gönguferð á Eggertsflöt gekk mjög vel og veðrið var yndislegt. Börnin byrjuðu á að leika frjálst og skoða umhverfið. Eftir að hafa fengið heitt kakó og nesti var farið í hreyfileiki, leikið með sápukúlur og teiknaðar myndir. Í síðustu ferð var hópurinn kominn í Höskuldargerði rétt fyrir fjögur en planið er að vera komin þar í síðasta lagi korter í fjögur. Ánægjulegt var að heyra hversu ánægðir foreldrar voru og ekki síður börnin með ferðina. Við hlökkum til næstu gönguferða á Eggertsflöt.

Sauðburður er í fullum gangi hjá Hönnu Sjöfn og Herði. Við höfum fjölgað gönguferðum í fjárhúsin og gaman að segja frá því að nú hafa bæði Rauða deild og Gula deild fengið að skoða litlu lömbin ásamt því að aðstoða Hönnu Sjöfn í fjárhúsunum við hin ýmsu verkefni. Börnunum finnst þetta æðisleg upplifun og erum við afar þakklát fyrir þetta góða samstarf.

Starfsmannamál: Í maí var auglýst eftir kennurum til starfa og bárust nokkrar umsóknir. Þeir sem hafa verið ráðnir til starfa eru þessir:

  • Ingibjörg Kristleifsdóttir leikskólakennari frá Húsafelli og nú búsett í Reykholti. Ingibjörg er mikill reynslubolti á leikskólasviði, hefur meðal annars verið leikskólastjóri, formaður félags stjórnenda í leikskóla og verið ein af frumkvöðlum í að innleiða einingakubbanám á Íslandi. Ingibjörg kemur til starfa 1. september og mun hún taka við deildarstjórastarfinu af Dagnýju þar sem hún fer í fæðingarorlof í haust. Ingibjörg verður í 100% starfi.
  • Steinunn Atladóttir barnabarn Steinu og Guðmundar á Grímsstöðum mun hefja vinnu hér í lok maí og verður hún í 100% starfi. Hún var að ljúka námi í BS gráðu í Interdisciplinary Studies/íþróttasálfræði í Bandaríkjunum en hún hefur reynslu af því að starfa með börnum.
  • Kristjana Karlsdóttir sem hefur starfað sem leiðbeinandi hjá okkur s.l ár kemur aftur til vinnu eftir fæðingarorlof 1. september í 100% starf.

Við viljum bjóða þessa starfsmenn velkomna í Hnoðrabólshópinn og hlökkum til að fá að njóta krafta þeirra.

Nýtt barn byrjar hjá okkur í þessari viku og bjóðum við það velkomið í hópinn inn á Rauðu deild.

Hjóladagar: Í þessari viku eru tveir hjóladagar á fimmtu- og föstudag. Viljum við biðja ykkur um að huga vel að því að börn sem koma með tvíhjól komi með hjálm. Við höfum ekki sett reglur um að það þurfi að koma með hjálm þegar börn koma með þríhjól þar sem þau hjóla á leikskólahjólunum hjálmlaus hér. Við höfum metið það svo að þau þurfi ekki hjálma þá þar sem þau hjóla á lokuðu svæði undir miklu eftirliti. Sumir leikskólar hafa bannað hjólanotkun alfarið nema á hjóladögum þegar börnin koma með hjálma, við höfum ekki viljað fara þá leið á meðan allt gengur vel en í þessu samhengi er mjög mikilvægt að ræða við börnin um öryggi þess að nota hjálma þegar hjólað er t.d á gangstétt eða þar sem umferð bíla er.

Þau hjól sem börnin koma með þurfa að vera í góðu ástandi þannig að allt öryggi sé tryggt, varðandi tvíhjólin þarf að huga sérstaklega að bremsum, lofti í dekkjum og hjálpadekkjum þar sem það á við.

Síðast þegar það var hjóladagur gekk hann mjög vel og eigum við ekki von á öðru þó svo að við höfum tíundað eitt og annað varðandi öryggi hér að ofan.

Leiðtogadagur og fjör föstudaginn 24.maí kl. 14.30, þann dag ætla börnin að bjóða systkinum sínum í heimsókn. Leikskólabörnin undirbúa daginn út frá þeirra aldri. Það eiga ekki öll börn systkini og þá geta þau börn boðið frændsystkinum til sín, nú ef það gengur ekki geta ömmur og afar hlaupa í skarðið.

Verkefni Leiðtogadagsins verður sniðin að börnum en að sjálfsögðu byggir það á því að foreldri/foreldrar fylgi sínu barni/börnum, verði okkur til aðstoðar ásamt því að eiga skemmtilega samveru í lok viku. Börnin hefja undirbúninginn í þessari viku þar sem þau ákveða hvernig best sé að taka á móti gestum sem eru að þessu sinni systkini.

Ömmu og afa kaffi verður þriðjudaginn 4. júní kl. 15:00. Börnin eru afar spennt að bjóða ömmum og öfum að koma sjá leikskólann okkar og þiggja kaffisopa.

Foreldraráð-foreldrafélagið fundaði s.l miðvikudag. Þann fund sat stjórn félagsins, Þóra Geirlaug formaður, Vigdís gjaldkeri og Helga ritari ásamt Sjöfn leikskólastjóra. Sjöfn greindi frá stöðu á biðlista og þeim aðgerðum sem verið er að gera til að bregðast við og taka inn barn á komandi hausti. Ljóst er að ekki er hægt að taka inn fleiri börn fyrr en haustið 2020 þegar nýr skóli tekur til starfa. Þær aðgerðir sem lúta að vægum breytingum sem fyrirhugað er að fara í munu verða kynntar fljótlega fyrir þeim foreldrum er málið varðar. Eins greindi Sjöfn frá þeirri ánægjulegu stöðu að líklegast verði hægt að manna skólann í haust sem hefur oft verið erfitt. Foreldrafélagið ræddi fyrirhugaða vorferð á Uppstigningardag 30. maí, takið daginn frá en ferðin verður auglýst af foreldrafélaginu á næstunni.

Að lokum er ánægjulegt að segja frá því að þessa dagana er verið að skoða þau tilboð sem bárust í viðbyggingu við grunnskólann og vonandi hefjast framkvæmdir sem fyrst.


MEÐ SÓL Í HJARTA

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2024 Karellen