Karellen
news

Fréttir 26.01.2018

26. 01. 2018

26.01.2018.

Kæru foreldrar.

Þessa vikuna hefur veðrið sett strik í reikninginn eins og undanfarnar vikur, þó ekki hafa kuldanum verið um að kenna núna. Það var svo hvasst og hált á miðvikudaginn og þann dag fórum við því ekkert út. Það er mikil hálka á efra á svæðinu í leikskólagarðinum þessa dagana og höfum við því mest verið á neðrasvæðinu eða í bakgarðinum.

Á miðvikudaginn var spiladagur og þá máttu börnin koma með spil eða púsl að heiman. Það komu margir með spil og við spiluðum mikið þann dag. Þetta heppnaðist mjög vel og var gaman.

Það stóð til, samkvæmt samstarfsáætlun GBf og Hnoðrabóls, að 5. bekkur á Kleppjárnsreykjum kæmi í heimsókn til skólahóps á miðvikudaginn. Vegna mikilla veikinda í grunnskólanum var heimsókninni frestað fram á föstudag. Það voru þó ennþá mikil veikindi en Hugrún í 5. bekk og Dagbjört í 6. bekk komu ásamt Þorsteini kennara og lásu Pétur og úlfinn fyrir börnin á gulu deild og vörðu smá tíma með hundahóp. Skólahópur fer svo í heimsókn í grunnskólann á mánudaginn, með rútu, og þá tekur 5 bekkur á móti þeim.

Síðast liðið sumar ákvað sveitastjórn að fara í þá vegferð að Borgarbyggð yrðir plastpokalaust samfélag. Af því tilefni komu til okkar tvær konur á vegum sveitafélagsins í vikunni til að taka út plastpokanotkun á Hnoðrabóli og benda okkur á það sem betur mætti fara. Þær voru nokkuð ánægðar með heimsóknina en við höfum markvisst unnið í átt að umhverfsivænni skóla, með grænfána verkefninu t.d.
Fyrir nokkru síðan fengum við taupoka frá Öldunni í Borgarnesi, í vikunni hafa börnin unnið að því að skreyta pokana með fatatúss og nú er ætlunin að senda öll óhrein föt heim í taupokum, eins og víða er gert á leikskólum, en ekki plastpokum. Taupokarnir eru eign Hnoðrabóls en foreldrar skulu þvo þá og skila hreinum við fyrsta tækifæri.

Á fimmtudaginn fengu allir foreldrar skilaboð í gegnum Karellen, þar sem við óskum eftir því að fólk svari okkur um að skilaboðin séu móttekin. Það er mjög mikilvægt að allir foreldrar skrá sig inn í þetta kerfi, því fljótlega munu flestar upplýsingar sem ekki verða gefnar munnlega koma þarna í gegn. Þetta kerfi og heimasíðan munu þá leysa tölvupósta, facebooksíðuna og útprentuð préf af hólmi.

Steina á Grímsstöðum komu og lásu fyrir börnin á gulu deild eftir kaffi á föstudaginn. Þetta samstarf við ábúendur á Grímsstöðum hefur gengið vel og vekur mikla gleði hjá krökkunum.

Nú hafa dagatöl febrúarmánaðar verið send heim, en við minnum einnig á að það má sjá alla viðburði á heimasíðunni hnodrabol.leikskolinn.is.

Næsta vika er tannverndarvika og þá munum við ræða um mikilvægi góðrar tannhirðu og fræðast um tennurnar okkar. Það er gott að skerpa einnig á þessari umræðu heima þessa daga.

Næsta miðvikudag verður náttfata- og bangsadagur á Hnoðrabóli. Þá mega börnin koma í náttfötum og með einn bangsa eða dúkku með sér. Við ætlum svo að horfa saman á stutta kvikmynd og hafa huggulegann dag.

Við minnum á að fimmtudaginn 1. febrúar er skipulagsdagur starfsmanna og þann dag verður leikskólinn lokaður og munu starfsmenn sitja námskeið á Andabæ. Þessi dagurinn verður einnig nýttur til að gera við hitalög inn á Rauð deild en það þarf að brjóta upp gólf við svalahurð. Ráðgert er að viðgerðin á lögninni standi yfir á föstudegi líka svo ljóst er að best sé að bregast við því á þann veg að fara með börnin í tveimur elstu árgöngunum út úr húsi og dvelja við leik og störf annarstaðar. Sjöfn mun ræða við foreldra þessara barna um hugmynd að íverustað því mikilvægt er að foreldrar þessara barna samþykki þá tillögu, sem gæti verið spennandi að okkar mati.

Að lokum viljum við minna á mikilvægi þess að börnin séu sótt á réttum tíma. Eins þarf að láta okkur vita ef einhver annar sækir börnin, hvort sem börnin fara heim með leikfélögum eða öðrum. Þess má geta að vistunartími barnanna er misjafn og því er mikilvægt að nefna við þann sem sækir hvenær vistunartímanum lýkur.

Góða helgi MEÐ SÓL Í HJARTA.

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2024 Karellen