Karellen
news

Fréttabréf júlí 2020

06. 07. 2020

Hnoðrabóli
6. júlí 2020

Kæru foreldrar

Nú líður að sumarfríi, sem hefst miðvikudaginn 8. júlí.

Nú er mjög krefjandi skólaári að ljúka og við förum reynslunni ríkari út í sumarið. Í haust fara í hönd spennandi tímar með nýju húsnæði, börnum og starfsfólki. Þar sem fyrirséð er að lóðin við nýtt skólahúsnæði verður ekki tilbúin í upphafi skólaárs þá mun yngri hluti barnanna vera áfram á Grímsstöðum eins og þurfa þykir. Elstu börnin flytja að Kleppjárnsreykjum 17. ágúst, eins og áður hefur verið greint frá. Fimmtudaginn 6. ágúst opnum við aftur eftir sumarfrí og þá mæta öll börnin að Grímsstöðum. Þessa dagana erum við að skipuleggja komandi skólahald á tveimur stöðum en það er mikið púsl að stilla starfinu upp svo allt gangi sem best á báðum stöðum. Nánar verður greint frá skipulagi breytinga þegar að þeim kemur.

Barnahópurinn:
Stór hluti þeirra barna sem hefja grunnskólagöngu í haust hafa kvatt okkur með bros á vör og mikilli tilhlökkun fyrir komandi tímun. Við þökkum þeim og fjölskyldum þeirra kærlega fyrir samfylgdina í gegnum árin.

Aðlögun nýrra barna hefst strax eftir sumarfrí og börnin munu tínast inn fram til 17. Ágúst. Ágústmánuður og starf skólans mun vera litað af þessu ferli. Ungum börnum á leikskólanum mun fjölga töluvert og hlökkum við til komandi tíma.

Starfsmannahald:
Töluverð breyting verður á starfsmannahópnum á komandi hausti. Dagný okkar er komin í fæðingarorlof. Þessa dagana er verið að ráða inn nýtt fólk til að mæta auknum fjölda barna.

Sumarlokun:
Minnum á að leikskólinn er lokaður frá og með miðvikudeginum 8. Júlí til og með miðvikudagsins 5. ágúst. Við opnum aftur á Grímsstöðum fimmtudaginn 6. ágúst á venjulegum tíma.

Skóladagatal 2020-2021:
Skóladagatal næsta skólaárs er komið á heimasíðu Hnoðrabóls og við hvetjum ykkur til að kynna ykkur það. Starfsdagarnir á skólaárinu verða 5 og eru þeir sömu og í Grunnskóla Borgarfjarðar.

Við viljum þakka ykkur kærlega fyrir góðan en þó mjög krefjandi vetur. Það er gott að finna samstöðuna í hópnum, bæði hjá starfsmönnum og foreldrum. Þegar á reynir þá stíga allir í takt og takast á við þau verkefni sem þarf að leysa. Sérstakar þakkir til stjórnar foreldrafélagsins fyrir stuðninginn og hvatninguna. Eins viljum við geta þess að samstarf við stjórnsýslu Borgarbyggðar og starfandi nefnda hefur verið mjög góð og styðjandi.

Takk fyrir allt og njótið sumarsins í faðmi fjölskyldunnar. Hittumst hress og kát í ágúst.

Bestu kveðjur MEÐ SÓL Í HJARTA
frá öllum á Hnoðrabóli

© 2016 - 2024 Karellen