Karellen
news

Fréttabréf 11. mars - 5. apríl 2019

05. 04. 2019

Tíminn hefur ætt áfram og hefur okkur ekki tekist að senda út vikulokabréf reglulega en nú bætum við úr því. Marsmánuður einkenndist af undirbúningi fyrir skóladaginn og fræðslu um ræktun. Börnin eru búin að sá fyrir hinum ýmsu plöntum og gera um leið skemmtilegar tilraunir.

Skóladagurinn: Við viljum þakka öllum þeim sem höfðu tök að því að koma og vera með okkur þennan dag. Gaman var að sjá hvað börnin höfðu ótrúlega gaman af því að taka þátt. Okkur fannst dagurinn lukkast vel og gaman að sjá og skoða hjá hinum skólunum. Fljótlega mun stýrihópur verkefnisins hittast og fara yfir hvernig gekk. Það sem snýr að okkur fannst okkur verkefnið mjög skemmtilegt og börnin sýndu því mikinn áhuga og þegar nær dró fann maður fyrir tilhlökkun hjá þeim. Sum börnin ræddu verkefnið heima fyrir t.d höfðu áhyggjur af bíóröðinni, hvort hún yrði mjög löng og hvort bíómiðarnir væru nógu margir. Þessi vinna var mjög gefandi og reynslurík fyrir okkur öll.


Dagur einhverfunnar var á þriðjudaginn og voru allir hvattir til að mæta í bláu til að vekja athygli á deginum. Flestir mættu í einhverju bláu og í tilefni dagsins horfðu börnin á gulu deild á fræðslumyndbönd um Dag og Maríu sem eru börn með einhverfu.

Gönguferðir hafa gengið vel og höfum við alveg haldið okkur við þær óháð veðrinu. Börnin hafa meðal annars farið uppí fjárhús, hesthús, með snjóþotur (vonandi gerist það ekki aftur) og síðastliðinn miðvikudag fórum við á túnið fyrir aftan húsið hennar Hönnu Sjafnar og þar var hægt að gera snjókarla. Gaman var að sjá samvinnuna og lausnirnar sem börnin fengu.

Páskaundirbúningur er kominn á fullt, börnin hafa gert skrautlegar páskamyndir og höfum við verið að safna eggjaskurn til að föndra með. Það má endilega koma með eggjaskurn út næstu viku ef fólk á til.

Páskamatur og gulur dagur verður næstkomandi miðvikudag, þá eldar Embla hátíðarmat og við höfum notalega stund saman í gulum fötum.

Ánægjulegt er að tilkynna að Kristjana eignaðist stúlku þann 9. mars s.l og heilsast þeim mægðum vel. Hamingjuóskir til þeirra.

Leikskólinn verður lokaður í Páskafríinu sem er frá 18.- 22. apríl.

Sumarleyfi: Leikskólinn verður LOKAÐUR frá og með miðvikudeginum 10. júlí og til og með miðvikudeginum 7. ágúst, opnum aftur fimmtudaginn 8. ágúst.

Góða helgi.

MEÐ SÓL Í HJARTA

Starfsfólk Hnoðrabóls.

© 2016 - 2024 Karellen