Karellen
news

Vikulokabréf 7. desember 2018

07. 12. 2018

Sælir kæru foreldrar

Nú er desember kominn með öllum sín samverustundum og gleði.

Töluvert hefur borið á kvef og hitapest hjá okkur síðustu vikuna og einhver börn hafa fengið gubbupest.

Við teljum niður dagana til jóla á Gulu deild með bókadagatali. Þá er opnaður einn pakki á hverjum degi, í sögustund eftir kaffi. Í hverjum pakka er bók sem síðan er lesin í sögustundinni. Þetta vekur mikla lukku hjá börnunum.

Við förum út alla daga og látum veðrið helst ekki stoppa okkur með elstu börnin. En við metum veðrið alla daga fyrir Rauðu-deild, sérstaklega í skammdeginu. Við höfum samt verið nokkuð heppin með veður og ekki margir dagar sem við höfum þurft að vera inni.

Á miðvikudaginn var Rauður dagur hjá okkur og gaman að sjá hvað margir mættu í rauðu.

Eftir leikskóla á fimmtudaginn stóð foreldrafélag Hnoðrabóls fyrir brúðuleiksýningunni „Pönnukakan hennar Grýlu“ í Logalandi. Það var vel mætt og hin besta skemmtun.

Í dag, föstudag, bökuðum við piparkökur og buðum foreldra velkomna að aðstoða okkur við baksturinn. Það var vel mætt og mikil gleði við baksturinn. Að bakstri loknum dönsuðum við í kringum jólatréið og gæddum okkur svo á nýbökuðum piparkökum í kaffitímanum.

Næsta vika verður líka þéttskipuð af jólaföndri og skemmtilegu uppbroti.

Á miðvikudaginn verður jólamatur að hætti Emblu og dansað í kringum jólatréið.

Á fimmtudaginn verður kirkjuferð. Sr. Geir býður leikskólabörnum í heimsókn í Reykholtskirkju kl. 15:30. Ferðin er valfrjáls og fara börnin hvert með sínu foreldri. Foreldrar koma og sækja börn sín í leikskólann og er brottför héðan kl. 15:15. Öll fjölskyldan er velkomin með. Við viljum biðja þá sem ekki sjá sér fært að koma með að láta deildarstjóra vita af því.

  • -Við minnum á að skórinn fer upp í glugga á þriðjudaginn 11. desember.

Við vonum að þið njótið aðventunnar jafn vel og við erum að gera.

Bestu kveðjur með sól í hjarta frá starfsfólki Hnoðrabóls.

© 2016 - 2024 Karellen