Vikulokabréf 30. nóvember og skipulag fyrir desember

30. 11. 2018

Sælir kæru foreldrar

Síðasta vika gekk vel.

Á miðvikudaginn var bíó þar sem börnin fengu að horfa á jólamynd Skoppu og Skrítlu.

Í dag föstudag var fánasýning þar sem börnin sýndu foreldrum sínum fána sem þau höfðu gert í tilefni af 100 ára fullveldisafmælis Íslands, í upphafi og lok dags.

Í dag voru send heim dagatöl ásamt blaði þar sem farið var yfir skipulag desembermánaðar.

Hér fyrir neðan fylgir skipulag desembermánaðar:


Kæru foreldrar.

Í desember munum við að fræða börnin um jólin, jólahald fyrr og nú og jólasveinana. Samverustundirnar reynum við að hafa notalegar með jólasögu, söng og fræðslu. Hefðbundið skipulag getur breyst þar sem svo margt annað er í boðihjá okkur sem er sveipað jólagleði.

Desember verður bókamánuður hjá okkur og þá mega börnin koma með eina bók á hverjum degi á leikskólann. Gaman væri að fá jólabækur. Við verðu líka með bókadagatal þar sem bíður okkar pakki fyrir hvern dag fram að jólum með bók sem verður lesin í sögustund eftir kaffi.

1. desember Laugardagur: 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Borgarbyggð hefur boðið til hátíðarhalda í Skallagrímsgarði þann dag kl. 16:00. Þar verður m. a. samsöngur leikskólabarna. Við höfum æft lögin sem þar verða sungin og er foreldrum frjálst að koma með börn sín til að taka þátt í hátíðarhöldunum.

5. desember Miðvikudagur: Rauður dagur. Þema dagsins verður rautt og væri gaman ef börn og starfsfólk gætu mætt í einhverju rauðu þennan dag.

6. desember Fimmtudagur: Foreldrafélag Hnoðrabóls stendur fyrir leiksýningu í Logalandi. Leiksýningin Pönnukakan hennar Grýlu verður sýnd kl. 16:30 og er opin leikskólabörnum og yngsta stigi grunnskóla ásamt foreldrum þeirra. Miðaverð er 2000 kr,- á fjölskyldu. Nánari auglýsingu má sjá á heimasíðunni okkar.

7. desember Föstudagur: Piparkökubakstur á Hnoðrabóli. Við ætlum að byrja að baka piparkökur kl. 13:45 og óskum eftir samveru og aðstoð foreldra við baksturinn. Gott væri að fá að vita hvaða foreldrar sjá sér fært að mæta. Endilega kippið með ykkur kökukefli, mótum og svuntum. Eftir baksturinn ætla börnin að syngja nokkur jólalög og dansa í kringum jólatréð en eftir það fáum við okkur síðdegishressingu. Vegna plássleysis viljum við árétta að systkini geta því miður ekki verið með okkur.

11. desember Þriðjudagur. Skórinn út í glugga. Jólasveinarnir: Foreldrar munið að fyrsti jólasveinninn kemur aðfaranótt 12. desember. Hér í leikskólanum erum við vön að fara með eina af vísum Jóhannesar úr Kötlum á hverjum morgni. Við hengjum upp 13 jólasokkaog í hvert sinn sem jólasveinn hefur komið til byggða förum við með vísu um hann, hengjum sveininn sjálfan á sokk og það er aldrei aðvita nema hann hafi sett eitthvaðgóðgæti eða gjafir í hann. Hér á Hnoðrabóli eru jólasveinarnir ekki notaðir til uppeldis á börnum, eingöngu er talað fallega um jólasveinana. Við reiknum ekki með að jólasveinarnir heimsækji öll börnin á rauðu deild og því verður minna talað um þá bræður þar.

12. desember Miðvikudagur: Þann dag verður jólamatur að hætti Emblu og við dönsum í kringum jólatréið.

13. desember Fimmtudagur: Kirkjuferð. Sr. Geir býður leikskólabörnum í heimsókn í Reykholtskirkju kl. 15:30. Ferðin er valfrjáls og fara börnin hvert með sínu foreldri. Foreldrar koma og sækja börn sín í leiksólann og er brottför héðan kl. 15:15. Öll fjölskyldan er velkomin með. Við viljum biðja þá sem ekki sjá sér fært að koma með að láta deildarstjóra vita af því.

4. janúar Föstudagur: Jólaball á Hnoðrabóli. Jólaballið er samvinnuverkefni á milli leikskóla og foreldrafélagsins. Sá háttur hefur verið á jólaballinu undanfarin ár að foreldrar mæta í leikskólann kl. 14:30. Við dönsum í kringum jólatréið, jólasveinninn kíkir í heimsókn með smá glaðning handa börnunum og að lokum drekkum við saman kaffi. Allir foreldrar koma með eitthvað á kaffihlaðborð en leikskólinn sér um drykki. Við viljum minna á að vegna plássleysis er því miður ekki hægt að bjóða systkinum með á jólaballið.

Athuga:

Leikskólinn er lokaður á hátíðisdögunum: 24., 25., 26., 31. desember og 1. janúar. Við viljum biðja ykkur um að láta vita fljótlega ef börnin verða í fríi á milli jóla og nýárs.

Einnig viljum við minna á að nauðsynlegt er að láta vita tímanlega ef börnin eru í fríi eða einhverjar breytingar verða á komu eða brottfarartíma þeirra.

  • Reglan er að ef barn er ekki komið klukkustund eftir umsaminn dvalartíma og ekkert látið vita er ekki gert ráð fyrir barninu þann daginn.
  • Við viljum sérstaklega minna á þetta núna, því í desembermánuði hafa börnin oftar verið í frí en venjulega og er þetta spurning um að skipulagið hjá okkur gangi vel barnanna vegna og auðvelda matarinnkaupin.

Við óskum öllum börnunum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári – þökkum fyrir samfylginda á árinu sem er að líða.

Bestu kveðjur með sól í hjarta, starfsfólk Hnoðrabóls


© 2016 - 2019 Karellen