Karellen
news

​Vikulokabréf 11. janúar 2019

11. 01. 2019

Góðan dag kæru foreldrar og gleðilegt ár.

Nú er fyrsta heila leikskólavika ársins að klárast og fyrsta vikulokabréfið komið í loftið.

Í byrjun árs verða nokkrar breytingar innan starfsmannahópsins þegar Elsa og Kristjana fara í barneignarleyfi. María Sigurðardóttir á Hellubæ hóf störf hjá okkur á mánudaginn sl. og byrjar í 50% og afleysingum en kemur í fullt starf þegar þarf. Bjóðum við Maríu velkomna til okkar á Hnoðraból.

Börnin komu glöð og endurnærð eftir jólafríið og allir virðast vera að falla aftur í rútínu.

Á föstudaginn sl. var jólaball hjá okkur á Hnoðrabóli. Þá kvöddum við jólin með því að dansa í kringum jólatréið, bræðurnir Hurðaskellir og Gluggagæjir komu í heimsókn með glaðning handa börnum og að loknu gómsætu kaffihlaðborði í boði foreldra var skotið upp nokkrum flugeldum.

Þessi vika er bókavika hjá okkur og gaman að sjá hvað börnin eru áhugasöm að koma með mismunandi bækur sem margar hverjar eru lesnar í hvíld eða samverustund. Það er líka ákveðin áskorun fólgin í því að koma með bók að heiman og leyfa öðrum að skoða hana.

Í næstu viku verður nóg um að vera.

Á þriðjudaginn, 15. jan, verður spiladagur. Þá mega börnin koma með spil eða púsl að heiman. Hér er líka til fullt af spilum og það verður meira spilað en venjulega.

Á miðvikudaginn, 16. jan, er starfsdagur og þá er lokað hjá okkur. Á starfsdeginum munu starfsmenn meðal annars fræðast um byrjendalæsi og barnavernd. Matráður mun einnig sitja námskeið ásamt öðrum matráðum hjá Borgarbyggð.

Á föstudaginn, 18. jan, er föstudagurinn Dimmi haldinn í þriðja sinn í Borgarbyggð. Föstudagurinn Dimmi er verkefni sem ætlað er til að vekja athygli á snjalltækja og rafmagnsnotkun. Þann dag eru allir hvattir til að njóta góðrar samveru sem ekki krefst notkunar á rafmagni. Við ætlum að nýta daginn í að fræðast um rafmagn, hafa rafmagnslausa stund og börnin mega koma með vasaljós eða batteríiskerti. Hér má lesa nánar um viðburðinn.

Að lokum viljum við biðja alla foreldra að yfirfara aukafatakassana hjá sínu barni. Aðgæta hvort fötin passi ennþá og hvort eitthvað vantar.
Það er æskilegt að í kassanum séu:

  • 3 stk nærbuxur
  • 3 sokkapör
  • 2 buxur
  • 1-2 langermabolir
  • 1-2 stk stutterma eða nærbolir
  • Þykkir sokkar og vettlingar 1 stk af hvoru.

Bestu kveðjur með sól í hjarta
starfsfólk Hnoðrabóls

© 2016 - 2024 Karellen